föstudagur, 4. febrúar 2011

Þrenn ágæt eyru

Hjá Gerrit Schuil í hádeginu á miðvikudögum eftir áramótin. Missti af fyrsta skiptinu 12. janúar.

!9. janúar 2011
Helga Þórarinsdóttir lék á lágfiðlu sína einvörðungu tónverk eftir konur. Afar ljúfir tónar með góðri innlifun og skarpri túlkun. Af höfundum kunnum við aðeins að nefna Klöru Wieck (Schumann) 1819–1896 sem átti tvö lög á dagskránni. Leikið var lag eftir norska konu, einkar áheyrilegt. Svo var einnig ein englendinga og önnur þjóðverja.

26. janúar söng Sigrún Hjálmtýsdóttir, kröftugt og hreint svo að glumdi í eyrum þeirra sem næst sátu. Óperuaríur tvær úr Julio Cesare Händels frá 1724. Því næst söng hún Ave Maríu eftir Bizet, á grunni lags frá 16.–17. öld, nú í búningi sem m a Gerrit sjálfur á hlut í. Söngur Sólveigar Griegs hljómaði afar vel. Að lokum var sungin óperuaría.

2. febrúar leiddi Gerrit fram Þóru Einarsdóttur sem fyrst söng 3 lög Jóns Ásgeirssonar við ljóð HKL. Og aukalagið var úr sömu smiðju. Á milli voru tvö lög Gabriels Fauré og önnur tvö eftir Rimsky-Korsakof og enn tvö eftir Tsjækofskí. Þóra sýndi hér sem oftar að hún er afar fær söngkona að raddgæðum og túlkun.

föstudagur, 31. desember 2010

Snauður að veraldargæðum

Síðasti mánuður ársins er yfirleitt snauður að veraldargæðum í tónleikahaldi. Jafnan er flutt einhver síbylja þess sem menn helga himnaföður og syni hans sem kann stundum að hafa skemmtunargildi en öllu má nú ofgera. Við höfum því frá fáu að greina. Þó skal hér nokkuð til tínt og byrjað um seinustu helgi nóvembermánaðar.

Djúp tjáning meistara Bach
– var yfirskrift hljómleiks í Gerðubergi sunnudaginn 28. nóvember í tónleikaröðinni Klassík í hádeginu. Nína Margrét Grímsdóttir, doktor að lærdómi og færni á hljóðfæri sitt slaghörpu, heldur þar um þræði og tauma, sér um að hvergi sé slakað á fyllstu kröfum og er sjálf meðal helstu flytjenda. Að þessu sinni voru fluttar 3 sónötur Jóhanns Sebastíans Læks með lækjarnúmerunum 1017–1019. Fiðluna strauk hinn ungi Jóakim Páll Palomares Jóakimsson, hálfur espanjóli son fiðluleikaranna Joaquín's Palomares's og Unnar Pálsdóttur, nú í framhaldsnámi við Hans Eisler-skólann í Berlín. Skemmst er frá að segja að víst var kafað djúpt en engu síður svifið hátt. Sónöturnar gerð sig frábærlega, jafnt í sínum hægu sem hröðu köflum.

Hinn Smurði Händels
– hljómaði okkur í Grafarholtskirkjusalarkynnum óðinsdaginn 8unda desember í flutningi sameinaðs tvíkórs háskólakórsins Vox academica og selkórs seltirninga við stjórn Jóns Karls Einarssonar en Sigrún Eðvaldsdóttir fór fyrir hljómsveitinni. Hljómfagur hljómleikur í húsi sem mun kennt við einhverja Guðríði; við skulum vona að átt sé við fornkonuna Guðríði Þorbjarnardóttur úr Skagafirði sem átti soðningarstað í Vesturheimi og gekk svo suður til Róms fremur en eyjakonuna Tyrkja-Guddu sem lenti í slagtogi með Hallgrími rímnaskáldi og sálmatuðara. Händel karlinn sauð saman Messías sinn við enskan texta í mesta tímahraki sumarið 1741 og furða hvað mörg sönglaganna hafa enst um meira en hálfa þriðju öld. 80 manns sungu í einu en að auki fengu þessi að syngja dálítið ein: Ágúst Ólafsson bassarödd, Snorri Wíum tenórrödd, Sesselja Kristjánsdóttir altrödd og Hulda Björk Garðarsdóttir sópranrödd.

Gleðjið ykkur eða Gaudete
– kyrjuðu aðrir 80 samsöngvarar í Seltjarnarnesguðshúsi mánudaginn 20. desember á vegum Mentaskólans í Reykjavík. Söngglaðir unglingar dálítið óagaðir og villtir, kannski í rauninni bara ráðvilltir sem eðlilegt má teljast í ljósi þess að þau fengu ekki að syngja neitt skemmtilegt eða tilþrifamikið, heldur einungis eitthvert jólagutl. Líklega var stjórnandinn Guðlaugur Viktorsson ábyrgur fyrir því.

Kristinn raddmeiri en 50 manna samkór
– í Hallgrímsgímaldi Skólavörðuholts á næstsíðasta degi ársins. Mótettukór Harðar Áskelssonar flutti alskonar jólamúsík sérvalda fyrir erfiðustu hljómvist nokkurra salarkynna í Reykjavík og fékk til liðs við sig organleikarann Björn Steinar Sólbergsson og Kristin Sigmundsson bassasöngvara. Þrátt fyrir mörg leiðindalög var þetta eftirtektarverður og eftirminnilegur hljómleikur og fengu þó hvorki lækurinn Bach né þýsk-ítalsk-enski snillingurinn Händel að hljóma heldur ýmsir minni spámenn einvörðungu, margir 4ra alda gamlir. Hér skal við fátt eitt staldrað; minnst á hina ágætu nótt Einsa í Eidölum sem Sigvaldi setti lag við og Atli Heimir hefir nú gætt forspili framanvið og yfirrödd organs við 3ja erindi. Á óvart kom klukknalag Sigurðar Sævarssonar skólastjóra Nýja tónlistarskólans við merkilegan texta Jóhanns skálds Jónssonar; þar má segja að kór og organ hafi tekist á og báðum veitt betur. Ef til vill hefði mátt gera hljómleikinn í heild veigameiri með því að skeyta inn í hann köflum úr Hel tónskáldsins sem hann gerði við hið magnaða verk Sigurðar Nordals en þar er guðinn víðs fjarri.

Höldum svo inn í nýtt ár hæfilega fullir jötunmóði móti öllum guðum og þeirra góðmennum.

föstudagur, 3. desember 2010

Söngvari og járningameistari

Það var mikil og góð alþýðuskemmtun á dagskrá hjá Gerrit á hádegishljómleik í eyranu hans 24. nóvember. „Við skulum skemmta okkur í óperuhúsi í dag“ sagði hann og kvaddi fram fyrir spennta áheyrendur ungan snaggaralegan mann Jón Svavar Jósefsson barítón. Allt frá fyrsta tóni voru allir í heyrnarmáli á söngvarans bandi og drukku í sig söng hans og svipbrigði hvur ekki voru lítil: „Non più andrai, farfallone amoroso“ er einn fjölmargra kátlegra söngva rakarans í Le nozze di Figaro Mozarts; nú er Fígaró að leiða veslings litla Cherubino það fyrir sjónir hvað muni bíða hans í hermennskunni sem greifinn ætlar að senda hann í. Jón Svavar var allur á iði við flutninginn, lék nefnilega hlutverkið engu síður en en hann söng það, og var þá jafnt á líkamshreyfingar hans að líta sem andlitstjáningu. Og röddin reynist jafn leikandi, undur veik og þýð þegar við átti en einnig stormandi kraftmikil í bland.
Svona reyndist þetta í hverju sönglaginu á fætur öðru. Næst söng Jón Svavar aðra Mótsart-aríu, nefnilega þjónsins Leporellos um afrek húsbóndans Don Giovannis í kvennamálum: „Madamina, il catalogo è questo –
In Italia seicento e quaranta / In Alemagna duecento e trentuna;
Cento in Francia, in Turchia novantuna / Ma in Ispagna son già mille e tre.“
Og endurtekið hvað eftir annað þúsund og þrjár, þúsund og þrjár.
Það má rétt ímynda sér hvað kátt er á hjalla í þeim hesthúsum landsins þar sem söngvarinn kemur til að járna gangvara reiðmanna en sú mun hafa verið hjáiðja hans um hríð.
Þriðja lagið var ekki svona leikandi glaðlegt og fullt af skopi heldur er faðir að vanda um við son sinn að hann ekki steypi sér í glötun í faðmi léttúðugra kvenna – nefnilega sjálfrar La Travíötu Verdis – og biður hann þess lengstra orða að snúa til átthaganna kæru, hafs og moldar Próvinsunnar:
Di Provenza il mar, il suol / chi dal cor ti cancello?
Al natio fulgente sol / qual destino ti furo'?

Flutt af alvöru sem bar en ekki tækifæri til þeirrar leikrænu tjáningar sem söngvaranum virðist eiginleg og var í gamansöngvunum fyrrgreindu.
Þá kom að aríu úr annarri Verdíóperu „Per me giunto è il dì supremo“ sem Rodrigo markgreifi af posa syngur á banastund við hlið spænska ríkisarfans don Carlos – og deyr með gleði í hjarta fyrir slíkan arfaherra og föðurlandið. Tignarlega sorgarþrungið að ítölskum hætti.
Að lokum söng Jón Svavar innganginn að óperu Leoncavallos um trúðana i Pagliacci:
Si può?... Si può?... / Signore! Signori!... Scusatemi
se da sol me presento / Io sono il Prologo!

Útlistar svo muninn á leiklist og raunveru sem reynist æði lítill enda um verismo óperu að ræða.
Og endar náttúrlega á því að biðja áhorfendur vel að njóta þess sem fram verður borið:
Il concetto vi dissi... / Or ascoltate com'egli è svolto.
Andiam. Incominciate!

Jón Svavar hafði orð um það að þetta væri besta óperuaría allra tíma. Og tilheyrendur heilluðust svo af þessari ljúfsáru harmskoplegu andrá að þeir trúðu og héldu ánægðir fullnægðir heim.

laugardagur, 20. nóvember 2010

5 nýbækur – yfirsýn himnakrókur

Hér verður gluggað í nokkur ný skáldrit lausamáls höfunda sem flestir geta víst talist nýliðar á þá grein; sumir þeirra hafa að vísu agað stíl sinn við bundið mál áður sem er náttúrlega þroskandi. Að jafnaði hefir lesturinn verið til ánægju, einnig á þeim bókum sem lítt er hampað eða eru með augljósum byrjendabrag.

Ævar Þór Benediktsson semur bókina „Stórkostlegt líf herrar Rósar og fleiri sögur af ótrúlega venjulegu fólki“, eins konar smásagnasafn. Margar sagnanna mættu heita örsögur eða kannski eru þær meira í ætt við það blaðaraus sem lagnir blaðamenn geta ungað út um allt og ekkert, oftast í gamansömum tón, og erlendis gengur undir heitinu causerie (kåseri á skandínavísku). Höfundurinn hálfþrítugur maður er sagður leiklistarskólagenginn og er ekki ólíklegt að margt af sögunum sé tilkomið sem efniviður í einleik hans sjálfs eða félaga. Með góðu áframhaldi gæti þessi frumraun á bók vísað veg til bitastæðra smáverka fyrir leiksvið. Málfar er vel þokkalegt.

Kári Tuliníus er sagður hafa birt nokkur ljóð áður en sendir nú frá sér skáldsögu „Píslarvotta án hæfileika“. Hún segir frá nokkrum ungmennum sem vilja rísa upp gegn óréttlæti og láta gott af sér leiða en virðist skorta skynjun, krafta og dug. Bókin er fjarri því að vera skemmtileg og mætti heimfæra titilinn upp á höfundinn sjálfan en það er nú reyndar óþarfa illkvitni. Málfar er frambærilegt, ekki víða smekkleysur.

Emil Hjörvar Petersen ritar fyrstu bók í þríleik, að því er segir á titilsíðu, en titillinn er tvíeinn: Saga eftirlifenda. Höður og Baldur. Verkið má heita metnaðarfullt, amk borið saman við fyrri bækurnar tvær sem hér voru teknar fyrir. Varla hægt að segja að hið stóra sé speglað í hinu smáa heldur rennur hér hægstreymandi og breið elfur alheimsframvindunnar, en þegar frá segir atburðum eru þeir í teikni fimbuls og feikna. Höður og Baldur eru ekki sveinstaular í hversdagslegum fjölskyldum lítilfjörlegs lífernis heldur goðsögulegar verur komnar úr sjálfri Eddu, frumbók norrænnar veru. Tíminn er næsta óræður nútími en ljóst að ragnarökkur hefir orðið, alheimsbrestur þar sem flest hefir farist en þó lifað af. Svo er um goðin, einnig þá pilta sem nefndir voru og ýmsar Edduverur þeim tengdar. Þetta lið, að ýmsu leyti gætt mannlegum eiginleikum utan yfir goðlegum kjarna, ferðast um heiminn í farartækjum nýjustu tækni en tekst fangbrögðum vöðvaafls og grimmdar í mikilli ógæfu og þeirri helst að miskunn endanlegs dauða er fjarri, allt hlýtur þetta að lifa áfram í leiðinda tilgangsleysi. Að svo miklu leyti sem lesið varð út úr þriðjungi bókar þegar lesandinn var búinn að fá nóg og þekkir ekki framhaldið. Er það ekki nægur vitnisburður þess að bókin geigar í veigamiklum atriðum? Lesandinn tengir sig ekki við frásögnina, finnst hún ekki koma sér og sínum raunheimi við, leiðist þessi kynjaveröld, finnur of fátt sem gleður en margt sem ergir. Meðal annars mállýti og undarleg stílbrögð: „Enga ógn stafaði af vinnumanninum …“ (33) – engin ógn hefðu flestir skrifað. „… hann heyrði dyninn frá dekkjunum sleikja malbikið … hvítar rákir þvert yfir veginn fitluðu dekkin“ (43) – voru það ekki barðarnir, dekkin á máli höfundar, sem sleiktu malbikið, ekki dynur þeirra? Fitluðu þverrákirnar barðana? eins og þær væru gerandinn í þukli og þreifi? Á baksíðu er upplýst að höfundur 26 ára hafi notið ritmenntunar; ójá, en lestu betur kunningi!

Kristín Eiríksdóttir hefir vakið athygli fyrir frumlegan skáldskap í ljóðformi, nú kemur hún fram með smásagnasafnið Doris deyr. Ánægjuleg bók fyrir vel sagðar sögur, vandvirkni í hvívetna. Höfundur hefir auga fyrir því frásagnarverða, helst að henni fatist þegar hún lengir sögur sínar um of. Málfar er óaðfinnanlegt. Af þessum höfundi verður gaman að frétta í framtíðinni.

Sigríður Pétursdóttir hefir lengi frætt útvarpshlustendur um kvikmyndir enda sérfróð á því sviði. Nú kemur hún fram með fyrsta skáldverk sitt, smásögur í formi bréfaskipta og nefnir Geislaþræði. Bréfaskipti, já má til sanns vegar færa, en nánar tiltekið skrifleg samskipti fólks í tölvupóstum að nútíðar hætti. Þar sem best tekst til verða úr þessu áhugaverðar frásagnir úr mannlífinu en við brennur að heildarmyndin verði dálítið losaraleg og ekki nógu áhugaverð fyrir lesandann. Stíllinn er trúverðugur, lausgopalega orðmargur og laus við skáldlega mælgi en þeim mun meira af hversdagslegu þusi um allt og ekkert. Svona ritar fólk tölvupósta nema hvað hér eru hvergi smekkleysur í stíl eða orðavali. Höfundur ætti að spreyta sig á kröfuharðara frásagnarformi enda þaulvön að setja fram hugsun sína í rituðu máli.

Þá er komið að Ófeigi Sigurðssyni og skáldsögu hans um Jón Steingrímsson eldklerk nýkominn til vetursetu í Mýrdal og skrifar Þórunni sinni norður í Skagafjörð úr eimyrju Kötlu við sandströndina ógnvænlegu. Höfundur er þekktur að athyglisverðum skáldskap svo sem þetta 6 ára kvæðisbrot sýnir:
Hlekkirnir
sem eitt sinn lágu um landið allt
gljáandi fínir og ávallt nýir
kyrfilega fastir saman
og glansandi ankerið djúpt í iðrum Heklu
meðvitund skýr
og yfirsýn himnakrókur …
Oss segir svo hugur að höfundur, fjölmenntaður maður í heimspeki og ýmsum veraldarfræðum, hafi lengi unnið að því langtitlaða verki sem nú liggur fyrir: Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma. Og er skemmst frá að segja að þetta óvenjulega skáldverk sem kalla má djarfa tilraun í okkar ómerkilegu tilveru nútíma málfátæktar, efnahagslegs aðkreppings og óvissu um þjóðleg gildi – að það gerir sig og er markvert framlag til endurmats á okkur sjálfum, stöðu okkar og markmiðum. Við þekkjum, eða megum þekkja guðsmanninn Jón úr sjálfsævisögu hans sem hann semur á gamals aldri sjálfum sér til réttlætingar gagnvart sínum mörgu afkomendum, sérkennilega hreinskilið rit um stórbrotinn mann á hörmungartímum. Það er ekki auðgert að setja saman bók með uppdiktuðum bréfum slíks manns á ungum aldri, láta þau lýsa inn í hugskot hans jafnt sem mannlíf í kringum hann við náttúrufeiknir samtíðarinnar sem þó blikna í samanburði við þau ósköp sem yfir hérað og land allt átti að ganga mannsaldri síðar. Það er fyrst og fremst í krafti tungumálsins sem Ófeigi tekst þetta. Það er rammur íslenskur keimur að hverju orði, mest allt er stílað þannig að lesandinn trúir því að þannig hafi fólk 18ándu aldar brúkað málið, en inn á milli flækjast nútíma orð eða orðatiltæki svo sem til að minna á það að textann ber að lesa og skilja með okkar skilningi sem nú lifum og erum gestir höfundar á þessari horfinni öld til þess að læra af henni að skilja betur okkur sjálf. Ófeigur skáld stílar eins og sá sem valdið hefir: „Landið er ein lifandi skepna. Líkami. Og Þórunn, hve sárt er ekki að hafa þurft að skiljast við þig og okkar guðsmyndarkríli í kroppnum, megi okkar góði Herra vera með ykkur og góð ljósmóðir þá barnið vill hingað koma í okkar snautlegu jarðvist. Við verðum að láta okkur duga sendibréf um sinn og treysta á þá sem ferðast milli landshluta þótt veður séu válynd, köld og tíðin hörð …“ (7) Sjálfur Jón raunveruleikans hefði ekki gert betur en Jón skáldsögunnar gerir hér. Í framhaldinu fer hann að hugsa um ráðagerðir Skúla fógeta um „bögglabera / sendla / pósta“ eins og tíðkist erlendis: „Og svo eru það Taxarnir í Hamborg, þeir þeysast um allt Þýskaland!“ (8) Bögglaberi er skemmtilega tvíátta orð og kann að hafa ratað í munn manna á hvaða öld sem er en fráleitt að orðið taxi hafi verið til á öld séra Jóns, jafnvel ekki í erlendum málum heldur. „Manstu í fyrra þegar ég fékk bréf frá Vísindafélaginu í Kaupenhöfn á einu máli svo skrýddu þyrnirósum að vart sást glitta þar nokkurs staðar í merkingu? Það var sannarlega skrifað í þeim gamla stilum fulminantem eða þrumustíl. Þar var sagt að þeir hefðu kynnt mig fyrir Frú Guðfríði frá Leipzig og hennar mónöðufræðum. Það finnst mér allskostar einkennlegt að þeir vilji eigna sér þekkinguna af slíku kappi, þá finnst mér eignarrétturinn orðinn vítt hugtak, að ég skili af mér verkinu sem þeirra skósveinn …“ (171) Þarna er Jón skáldsögunnar að diskútera heimspeki sinnar aldar við sína velmenntu ektafrú. En orðin eru dýr. Eignarréttur er vissulega gamalt orð í íslenskri tungu en hugtak er nýsmíði um það bil 100 árum eftir dag séra Jóns Steingrímssonar.

föstudagur, 19. nóvember 2010

Schumann Auður Gerrit og María skotadrottning

Rétt einn ganginn var Gerrit Schuil í hlutverki alþýðufræðarans á hádegishljómleik sínum, eyranu, óðinsdag 17. novembris árs 2010 vors tímatals. Hann fræddi fólkið annars vegar um Maríu Stuart skotadrottningu sem var hálshöggvin 1587, hins vegar um tónskáldið Róbert Schumann sem lést á geðveikrahæli 1856. Kennimark allrar góðrar alþýðufræðslu er að hún hvetur fólk til sjálfsnáms og víðari útsýnar. Því er hér farið aðeins víðar um völl en Gerrit hafði tíma til að gera viðvíkjandi atvikum og sögu.

María dóttir Jakobs 5ta skotakóngs og franskrar spúsu hans fæddist í sama mund og faðirinn lést 1542. Hún var því eins árs krýnd drottning skota en skoskir aðalsmenn og þing þeirra fóru með stjórn ríkis og að þeirra ráðum og móður hennar, sumpart vegna skæra við granna sunnan landamæra, var telpan send 6 ára til Frakklands trúlofuð konungssyni þar, til uppeldis hjá móðurfólki. 10 árum síðar giftist María Francis dauphin frakka og komust þar til ríkiserfða 1559 við lát Hinriks annars. Árið eftir lést móðir Maríu í Skotlandi og stuttu síðar misssti María mann sinn, hinn unga frakkakóng Francis II, banamein hans var eyrnabólga; þau barnlaus. María mátti nú heita fulltíða, fríð sýnum, há vexti, greind, menntuð talandi 4 tungumál, vel íþróttum búin, friðelskandi, furðu laus við hleypidóma þótt alinn væri upp í kaþólsku, kunni mælskulist og orti ljóð. Frænka hennar Elísabet dóttir Hinriks áttunda, sem hafði sagt skilið við páfadóm og Önnu Boleyn einnar af hans mörgu konum sem hann lét gera höfðinu styttri, var nýorðin drottning á Englandi og foringi mótmælenda en þeir höfðu orðið undirtökin í Skotlandi einnegin. Amma Maríu, Margrét Tudor drottning Jakobs fjórða skotakóngs, var systir Hinriks áttunda; þær voru því skyldar að öðrum og þriðja drottningarnar María og Elísabet fyrsta. Maríu Stuart fýsti nú til heimkynna sinna í Skotlandi og hélt þangað 1560 þótt hún mætti vita að hennar biðu miklir erfiðleikar og hættur, bæði vegna óeiningar í eigin ríki og afskipta af hálfu englendinga. 5 árum síðar giftist hún margskyldum frænda sínum Hinriki Stuart, bæði komin af Margréti Tudor. Þau eignuðust soninn Jakob sem lifði af róstutíma og átti eftir að ríkja yfir bæði Skotlandi og Englandi. Hinrik var mesti ribbaldi og lét vega einkaritara drottningar vegna afbrýðisemi en var svo sjálfur drepinn í samsæri aðalsmanna. María, til að halda völdum og þyrma lífi sonar síns, giftist fljótlega aftur öðrum ribbalda en skoskir aðalsmenn gerðu enn uppreisn, fangelsuðu drottningu og neyddu til að afsala sér völdum, formlega til sonar síns eins árs en í reynd til hálfbróður síns sem varð ríkisstjóri en skammlífur. Maríu tókst að losna úr dýflissu skota, dró saman her og reyndi að berjast til valda að nýju en beið ósigur. Hún flúði þá suður yfir landamærin 1568 og leitaði skjóls hjá frænku sinni Elísabetu Englandsdrotningu. Sú var full tortryggni í garð hinnar glæsilegu kaþólsku konu sem taldist hafa erfðarétt að ensku krúnunni og setti þegar varðhöld um Maríu. Næstu 19 árin var svo María í haldi Elísabetar, mismunandi ströngu, en að lokum, eftir nokkurra mánaða réttarhöld, var hún tekin af lífi fyrir drottinsvik í febrúar 1587 ekki fullra 45 ára að aldri. Elísabet treysti sér aldrei til að hitta og horfast í augu við frænku sína og að henni látinni reit hún undarlegt bréf til Jakobs sonar hennar harmandi dauðdagann og taldi hann „slys“. 16 ár í viðbót átti Elísabet meydrottning eftir að sitja á valdastóli en eftir hennar dag varð sá sami Jakob Maríuson eftirmaður hennar á þróni, Jakob fyrsti englakóngur. Eitt hans fyrsta verk var að láta flytja jarðneskar leifar móður sinnar til Westminster Abbey og skrínleggja þær þar við hlið Elísabetar.

Er svo lokið forspjalli að 5 laga söngvasveig Róberts Schumanns „Kvæði Maríu Stúart drottningar“ sem talið er að hún hafi sjálf ort á markverðum tímamótum ævi sinnar og þýtt hafði á þýsku shakespeare-fræðingurinn Gisbert Vincke 1813–1892. Eins og Gerrit hefir ítrekað nefnt voru í sumar leið 200 ár frá fæðingu Róberts, eins hins helsta tónskálds rómantíska tímabilsins. 15. september flutti Hulda Björk Garðarsdóttir með Gerrit ljóðaflokkinn Frauenliebe und -leben í eyranu en nú var komið að Auði Völu Gunnarsdóttur sópran að syngja um hjartaskerandi nauðir drottningarinnar fögru. Báðir ljóðaflokkarnir lúta að örlögum kvenna, þann fyrri um Kvennaástir tónsetti Schumann nokkuð snemma á ferli sínum, 1840, þegar hann endanlega hafði þóst hafa höndlað lífshamingjuna með því að kvænast hinni hæfileikaríku hljómlistakonu Klöru Wieck, en hinn síðari um líf skotadrottningar tónsetti hann 1852 þegar farið var að halla undan fæti fyrir honum, hann hafði misst hljómsveitarstjórastöðu sína í þuslaraþorpinu Düsseldorf og einkenni andlegrar truflunar voru skammt undan. Verkið er hans síðasta fyrir einsöngsrödd.

Söngur Auðar og meðleikur Gerrits var lét fáar óskir óuppfylltar. Fyrsti söngur Maríu Frakkland kvatt (1560) með trega: Ade, mein fröhlich Frankenland / Wo ich die liebste Heimat fand. Annar söngur bæn skotadrottningar um heillir til handa nýfæddum syni (1566) með andagt og stunum. Þriðji söngur orðsending til Elísabetar Englandsdrottningar þegar María völdum svipt er á leiðinni suður (1568); segist hræðast margt en ekki sína „kæru systur“: So bin auch ich bewegt von Furcht und Sorgen / Vor euch nicht, Schwester. Doch des Schicksals Walten / Zerreißt das Segel oft, dem wir vertraut. Fjórði söngur sonnettan Kveðja til heimsins (1586) þegar María sér að hverju fer, segist frábitin metorðum en eigi eina ósk: Bald geht mit mir zu Grabe Hass und Streit. Fimmti söngur bæn á banastund (1587) til endurlausnarans: … ich hoffe auf dich / … nun rette du mich!

Nú sneru þau Gerrit og Auður sér að óperum; hún söng maríubæn, ave maria, Desdemonu úr 4ða þætti Óþelló Verdis (1887), en aðstæður eru svipaðað og í lokabæn Maríu skotadrottningar, dauðinn er á næsta leiti. Einnig fluttu þau aðra ítalska aríu, einnig eftir Verdi að vér ætlum.

Lokalagið var úr Tannhäuser Wagners (1845/1861), geysierfitt til söngs og ekki var spilverkið síður kröfuhart og var sem mörg hljóðfæri hljómuðu í senn. Eftirminnilegur hljómleikur daginn þann.

laugardagur, 13. nóvember 2010

List sem hrífur til betri heima

Tenórsöngvarinn Gissur Páll Gissurarson kom fram í eyranu hjá Gerrit Schuil miðvikudaginn 10. nóvember og söng nokkur ljóðalög Schuberts, í fyrsta skipti opinberlega að því er hann sjálfur sagði, en Gissur er kunnur að ítölskum söng enda menntaður með þarlendum til margra ára. Hann hóf sönginn á afar hægu og hátíðlegu, allt að því sorgþrungnu lagi sem hér verður ætlað að hafi verið bænarákall á allra sálna messu: Liebevolle Mädchen Seelen / deren Tränen nicht zu zählen / die ein falscher Freund verließ / … ruh’n in Frieden! Sem sé dulbúinn ástarsöngur, einskonar inngangur að Ständchen: Leise flehen meine Lieder / Durch die Nacht zu dir / In den stillen Hain hernieder / Liebchen, komm zu mir! – sem einnig gengur varfærnislega fram, ljóðsöngvarnir líða ljúft á næturþeli áður en viðfang ástarinnar er örmum slungið. Þriðja lagið kann að hafa verið við ljóð Rückerts: Du bist die Ruh / Der Friede mild / Die Sehnsucht du / Und was sie stillt. Hægt og svífandi en samt nokkuð sterkt. Næst spriklaði silungurinn: Ein Fischer mit der Rute / Wohl an dem Ufer stand / Und sah's mit kaltem Blute / wie sich das Fischlein wand. Og allt í tómu fjöri en reyndar líka harmi yfir vonsku heimsins. Schubert-sveigurinn endaði á lofgerð til hljómlistarinnar: … in wieviel grauen Stunden … Hast du … mich in eine beßre Welt entrückt! Síðasta kynnta lagið var af heimavelli söngvarans, una furtiva lagrima úr l’Elisir d’amore eftir Gaetano Donizetti frá 1832, fáum árum eftir ótímabæran dauða ljóðsöngvasnillingsins Schuberts. Munurinn kannski ekki síst sá að áheyrandinn lifir tilfinningar Schuberts í sjálfum sér, finnur sannindi þeirra, en Donizetti og öll þau ítölsku snoturmenni sveifla sér í kringum tilfinningalífið, opna einn og einn glugg og það virðist satt sem maður sér en það er einhvern veginn eins og utan við hann sjálfan. Sannarlega ekki við flytjendur eyrans að sakast um það! Aukalag var flutt sem ekki þótti taka að kynna, þýskt óperulag að virtist vera. – Kannski leyfist að geta þess að nefndur Gissur góðsöngvari er bróðurson bræðranna Páls og Ólafs frá Hraungerði sem nefndir voru í frásögn af 70 ára hernámi í Flóa hér á vefsíðunni; þar með er Stefanía hin söngglaða prestsfrú Gissurardóttir amma hans.

föstudagur, 12. nóvember 2010

Herskáli, Smalaskáli, Tryggvaskáli – að 70 árum liðnum

Safnahelgi var á Suðurlandi dagana 5ta til 7unda nóvember. Þá var talsvert um að vera í þéttbýlisstöðum fjórðungsins og jafnvel uppum sveitir einnegin. Því bar vel í veiði að skreppa austur yfir Fjall á laugardeginum og athuga hvað í boði væri á Selfossi.

(Já, það eru ekki allir sunnlendingar hrifnir af þeim opinberu heitum sem tvö stór sveitarfélög Flóans hafa fengið í nútímanum og þykir ýmsum hvorugt réttnefni: Árborg er ekki borg, hvorki í hinni gömlu landfræðilegu merkingu né síðari merkingu um þéttbýlissamfélag stærri gerðar. Og ankannalegt að þorpin niðri á ströndinni séu kennd við ána Ölfusá sem vissulega rennur í gegnum Selfoss og skilur neðar Breiðumýri frá Ölfusfor. Enn skrítnara er að nefna eystri hluta millifljótalandsins (mesópótamíu Íslands) Flóahrepp og nái aðeins yfir helming Flóans. Skyldu þeir Flóahreppsmenn ala með sér útþenslustefnu og huga á landvinninga í ytri hlutanum?)

60 manna tyrfingsfar rúmaði ekki alla sem vildu fræðast af Þóri Vigfússyni í Kaldaðarnesökuferð svo að bæta þurfti við sjálfgengum kálfi þar sem Árni Sverrir hátalaði til fólks. Ekki voru skemmtandi og fræðandi frásagnir skornar við nögl í ferðinni, hvorki í bílnum né heldur á hlaðinu í Kaldaðarnesi þar sem fólk nýtti sér balann sem bæjarhóllinn gamli nú myndar og trónir þar innantómt kastalahús herra jarðarinnar sem hér er ekki drottinn upphæða heldur Jörundur Gauksson og hefir víst enn aðsetur sitt niðri í Hreiðurborg. (Innan sviga skruppu ýmsir niður í kirkjugarð sem enn nýtist þótt kirkjan hafi verið tekin niður í öndverðri tíð Sigurðar sýslumanns; þar liggur hann sjálfur grafinn og hans fólk, einnig Jörundur Brynjólfsson og hans fólk og Ingibjörg ekkja Gauks hefir þegar fengið áletrun á legstein, vantar aðeins dánardægrið enda hún bráðlifandi í Kálfhaga.) Á bæjarhólnum var rifjað upp að 10. maí 1940 þegar breski herinn steig á land í Reykjavík hélt hersveit þegar austur í Flóa og beint að Kaldaðarnesi þar sem Lýður hreppstjóri Guðmundsson í Litlu-Sandvík stóð fyrir axjón á búi þeirra sýslumannsbarna sem þar höfðu séð um búrekstur eftir dag foreldranna (Sigurður Ólafsson lést 1927, Sigríður Jónsdóttir 1932). Jón kaldi Sigurðsson (skrifstofustjóri alþingis) var náttúrlega á staðnum og kunni einn þar staddra íslendinga að tala ensku, gat leiðrétt misskilning á báða bóga, þann hjá bretum að hreppstjórinn með húfuna væri þýskur foringi, hinn hjá íslendingum að aðkomumenn væru þýskir hermenn. Hvar er flugvöllurinn? – þarna í mýrinni, kvað Jón. Hún leit ekki mikið öðruvísi út þá en nú, 70 árum síðar, þegar ekkert sést þeirra mannvirkja sem þarna voru gerð á vegum breska hersins á árunum 1940–43. Þá má segja að heil borg hafi risið á túni og engjum Kaldaðarness og enginn bóndi hélst þar við búskap fyrr en eftir stríðslok 1945. Skrítin atvik ullu því að herflugvöllur var gerður í Kaldaðarnesi, það að þýskur flugmaður hafði lent þar rellu sinni árið 1920 (fyrirvari um ártal!) Þetta vissu bretar og gerðu því skóna í öndverðu stríðinu að þýski flugherinn væri um það bil að setjast þar á fullbúinn flugvöll. Þór minnti á það þegar einn danskurinn á Selfossi, Malling Andreasen, lenti í ketilsprengingu og slasaðist lífshættulega en var tjaslað saman í hersjúkrahúsinu mikla í Kaldaðarnesi, fékk málmplötu á höfuðkúpuna til að halda innvolsinu í skefjum. Ein framkvæmdanna var olíuleiðsla á mjórri óakfærri brú yfir Ölfusá nálægt gamla ferjustaðnum milli Kaldaðarness og Arnarbælis en brúna tók af í miklum flóðum viku af mars 1943. Þá fór flugvöllurinn á kaf í vatn og margir herskálanna voru umflotnir, hinn horski her flúði sem fætur toguðu upp að Selfossi. Í kjölfar þessa dró úr mikilvægi Kaldaðarness en bandaríska setuliðið setti mikinn kraft í byggingu flugvallar og herstöðvar á Miðnesheiði. Að öllum þessum frásögnum loknum var haldið heim á leið og tali snúið að öðrum efnum svo sem krossinum helga sem stóð í pápískri tíð í Kaldaðarnesi og svo mikil helgi var á að fólk flykktist á staðinn til að njóta blessunar en aðrir sem ekki komust alla leið sóttust eftir að sjá til hans úr fjarlægð svo sem konur þær úr Selvogi sem Kvennagönguhólar utan í Selvogsheiði eru við kenndir. Verður þó að segjast að fráneygar hafa þær konur verið sem höfðu veður af krossinum svo langt að, jafnvel þótt hann væri borinn út úr kirkjunni í Kaldaðarnesi á góðviðrisdögum. Gissur Einarsson fyrsti biskup lútersku (1540–48) lét taka krossinn niður og fela svo að fólk hætti að leita líknar hjá auvirðilegum hlutum, og hvað gerðist? Biskup varð skammlífur og dó. Eftirmaður hans um 8 ára skeið Marteinn Einarsson mun hafa látið krossinn í friði en sagði af sér biskupsdómi í hendur skálksins Gísla Jónssonar sem gerði betur en Gissur, lét brjóta krossinn og brenna brotunum. Hvað gerðist? – hann dó (að vísu þrem áratugum síðar).

Komin í Selfossbyggð aftur var ekið út á flugvöllinn þar og gengið í flugskýli Einars Elíassonar í SET (lagnavöruframleiðsla) og Jóns Guðbrandssonar dýralæknis. Þar eiga þeir félagar ýmsa dýrgripi loftsins og landsins vega og merkilegt safn stríðsminja úr Kaldaðarnesi sem Einar hefur annast og kallar nú Ekki-safn. Þar mátti sjá sérlega ófrýnilega dráttarvél sem sat þar áratugum saman og ryðgaði í mýrarkeldu og margt fleira gott, aðallega smáhluti reyndar. Staðarmaður sagði mér að hann hefði ekki vitað um þetta safn en var þó kunnugt um að Einar hefði eitthvað verið að grúska í svona gömlu dóti. Klukkan tvær mínútur yfir tólf var aftur komið á upphafsstað fyrir framan gamla kaupfélagið sem nú kallast ráðhús en beint upp af biðstöð strætisvagnsins er gengið inn í bókasafn staðarins. Það var opið og til sýnis ýmislegt úr stríðsminjasafni Tryggva Blumensteins, herklæði, myndir, skjöl, m. a. sendibréf með útklippti gati ritskoðunar. Tryggvi mun vera þrítugur maður sem hefur safnað slíku efni frá 10 ára aldri upplýsti formælandi menningarmálanefndar kaupstaðarins Kjartan Björnsson.

Mili klukkan 2 og 4 var dagskrá í Tryggvaskála (Gunnarssonar) þar sem flutt var margvíslegt efni tengt hernáminu fyrir 70 árum og hernámsárum í Flóanum, söngur, kvikmynd, erindi, upplestur, frásagnir.
Skúli Sæland sagnfræðingur ofan úr Tungum hafði tekið saman erindi með sýningu skjámynda sem fæstar sáust um aðdraganda hernáms og fyrstu dægrin. Fróðlegt nokkuð enda Skúli vel að sér um styrjaldarárin.
Sýnd voru myndskeið Kadóríans frá Hraungerði og Ólafur Sigurðsson fréttamaður sagði deili á börnum sem sáust á vappi. Milli þeirra atriða sagði Páll bróðir Ólafs (Palli prests, synir séra Sigurðar Pálssonar 1901–1987 og Stefaníu Gissurardóttur 1909–89) endurminningabrot frá stríðsárunum en hann var 6 ára þegar herinn kom. Þjóðverjinn Herr Pripp kom í Hraungerði og dvaldist þar nokkra daga, þóttist vera sérfræðingur í katólskum helgisiðum en séra Sigurður mun hafa kímt að þeirri fullyrðingu. Var allt óljóst um erindagerðir Pripps í landinu en hann var lukkulega horfinn rétt áður en bretar stigu á land. Tvær óléttar stúlkur fengu um skeið hæli í Hraungerði, fyrr María nokkur, fylgikona skipverja á Gullfossi sem varð innlyksa í Kaupinhöfn við hernám Þjóðverja. Hún kynntist vinnumanni á næsta bæ og gat lagst þar við stjóra. Hin síðari var Sigríður Kristinsdóttir og ól barn sitt hjá Stefaníu prests, Magga ljósa tók á móti sveini sem síðar varð bílasnillingurinn Stjáni meik. Faðirinn var enginn annar en Jón Kristófer kadett sem um skeið hafði búið í London, gengið í breska herinn og kom hingað túlkur með hernámsliðinu. Þar gekk honum í fyrstu allt í haginn en svo seig á ógæfuhlið eins og jafnan var hjá honum á þessum árum, hann féll í drykkjuskap og gat ekki sinnt starfi sínu. Bretar urðu illir við að missa túlk sinn en Jón tók það ráð að strjúka úr hernum. Við liðhlaupi lágu þungar refsingar og leituðu nú bretar drottinssvikarans. Eins og vita mátti og bretar eða þeirra íslensku hjálparkokkar giskuðu á leitaði kadettinn skjóls á heimili barnsmóður sinnar í Hraungerði. Þar var honum vel tekið enda hafði hann frá mörgu að segja og var glæsimenni þegar hann mátti sín. Út í frá var hann Jón vinnumaður og gekk með heimilisfólki að störfum. Ef grunur var á að bretar kæmu var Páll litli látinn fara með hann út á tún í hólinn Smalaskála og skyldu þeir fela sig þar í holu uns hættan væri liðin hjá. Bretarnir leituðu um allan bæ og útihús, fóru svo í kirkju og hlýddu á guðsorð hjá prestinum; sjálfsagt hefir Stefanía hin söngglaða ekki látið sitt eftir liggja. Gaman hefði verið að heyra hvernig presturinn, þjónn sannleikans, hefði svarað spurningum breta um það hvað hann vissi um kadettinn, svo sagði Páll um föður sinn. Að lokum þreyttist fólk á að hafa þennan hættulega mann barnsföður vinnukonunnar á bænum, honum var komið norður yfir Hvítá hjá Oddgeirshólum, kvaðst Páll ekki vita hvað um hann hefði orðið í Grímsnesinu, en nokkuð er það að kadettinn lifði af og lenti aldrei í klóm breta. Ýmislegt fleira bar á góma í gagnorðri frásögn Páls vélvirkja; enn man hann þýsku flugvélina fljúga lágflug yfir Flóann, þá sem skaut skotum að bresku hermönnunum við Ölfusárbrú 9unda febrúar 1941.
Ólafur fréttamaður kvaðst muna minna eftir stríðsárunum en Páll bróðir enda yngri. Hermdi þó orðaskipti foreldra sinna þegar Sigurður hringdi í símstöðina á Selfossi og fékk svar á ensku. Er það ekki gott, spurði Stefanía. Það kunna margir þjóðverjar ensku, ansaði prestur. Þetta kynni að hafa gerst á hernámsdaginn. Ólafur vakti athygli á staðsetningu flugvallanna sem bandamenn gerðu hér í stríðinu með tilliti til aðflugs til landsins: Kaldaðarnes hentaði bretum komandi úr suðri en Keflavík könum sem flugu að úr vestri. Allt fram að þotuöld sem hófst 1959 komust kanar ekki almennilega heiman frá sér til herstöðva sinna á meginlandi Evrópu án viðkomu og heppilegasta millilendingin var á Íslandi.
Sævar Logi Ólafsson sagnfræðingur á Héraðsskjalasafninu gerði tilraun til að flytja erindi um loftvarnir á stríðstímanum af hálfu íslenskra yfirvalda, aðallega í Reykjavík. Á Selfossi varð til loftvarnarnefnd undir forystu Páls sýslumanns Hallgrímssonar eftir „loftárásina“ í febrúar 1941. Óvíst um athafnasemi þeirrar nefndar.
Hákon Sigurgrímsson frá Holti (lengi framkvæmdastjóri stéttarsambands bænda og fulltrúi í landbúnaðarráðuneytinu) las upp úr rétt óútkominni endurminningabók sinni, Svo þú ert þessi Hákon. Snoturlega lesið.
Síðan steig fram Sigfús Kristinsson byggingameistari og sagði fram blaðalaust ýmsar minningar sínar um hernámið og stríðsárin en hann var 8 ára þegar breski herinn kom, fyrir 70 árum. Þótti áheyrendum gott að fá að hlæja að frásögnum hans og skrítlum.
Að lokum flutti Guðni Ágústsson mjólkurfræðingur ræðu með tilheyrandi tilburðum í handsveiflum og orðkynngi og dvaldi meira við pólitíska leistann sinn en sveitaminningar; að vísu getur hann ekki munað blessað stríðið sem færði íslendingum auð og tækni, eins og hann rakti, þar eð því lauk nokkru áður en hann skaust inn í barnahópinn á Brúnastöðum. Hins vegar mótaðist Guðni nokkuð af kaldastríðsárum; lét þess getið að hann hefði sjálfur ungur maður verið andstæðingur hernáms og fyllst hugsjónum um herlaust land en menn hlytu þó nú sem áður að átta sig á stöðu Íslands í veröldinni. Lýðveldið hefði verið stofnað 1944 með leyfi Bandaríkjanna, menn hefðu beinlínis beðið skeytis Roosevelts á Þingvelli áður en hægt var að lýsa yfir lýðveldistöku, og langa stund stóðu íslendingar undir verndarvængnum að vestan. Evrópa hafði í fyrstu ekkert að bjóða annað en sundrungu, mannvíg og eymd. Svo rétti hún úr sér en margt varhugavert í alþjóðapólitíkinni, ýmsir fylltust vonardraum um rússa en hvar er hann nú, Sigurjón? (og leit hvössum augum á aldraðan flóamann sem síst átti von á slíku skeyti). Nú steðja enn ógnir að þjóðinni, að þessu sinni sú mest að stórríkið Evrópa gleypi okkur og því eðlilegt að við lítum aftur vestur um haf til að fá styrk til sjálfstæðis og farsældar. Það væri margt að læra af sögu stríðsáranna og eftirtímans.
Inn á milli atriða var skotið músík sem Tónsmiðja Suðurlands stóð fyrir, Stefán Þorleifsson skólastjóri lék á píanó og Ásdís Ýr söng með stríðsárasöngva, þokkalega. Þar á meðal hinn fræga hermannasöng um Lili Marleen við ljósastaurinn sem Marlene Dietrich gerði heimsþekktan á stríðsárunum í herbúðum bandamanna. (Ekki víst að allir átti sig á því að lag og ljóð eru þýsk; skáldið Hans Leip orti kvæðið í varðstöðu við herbúðir í Ketilsgötu í Berlín rétt áður en hann skyldi fara á austurvígstöðvarnar í fyrra stríði en tveim áratugum síðar samdi Norbert Schulze lagið sem kabarettsöngkonan Lale Andersen söng inn á hljómplötu 1939 og var mikið spiluð í hernámsútvarpinu Soldatensender Belgrad 1941 og síðar; náðist um alla Evrópu.)
Um frammistöðu talenda á samkomunni í Tryggvaskála má fullyrða að hún stóð í öfugu hlutfalli við skólalærdóm þeirra. Umhugsunarefni; gerist víst víðar en í Flóanum.

Síðan var einskonar framhaldssamkoma í leikhúsi þeirra selfyssinga í gamla iðnskólahúsinu við Sigtún og stóð í rúma klukkustund. Erlingur Brynjólfsson fór yfir styrjaldarsviðið og skók loftvarnarbyssueftirlíkingarskellu Ólafs í Forsæti svo að áheyrendur vöknuðu við, sýnd var 12 mínútna Íslandskvikmynd amríska armenans Kadóríans frá 1943 í fyrsta skipti hérlendis (en brot úr þeirri sömu höfðu verið á dagskrá í Tryggvaskála) og leikfélagið lék nokkur atriði úr hernámssjónleik Jóns Hjartarsonar Brúin (milli heima?) Á undan söng kór Tónsmiðjunnar samanstandandi úr 3 körlum og 10 konum á sína vísu og á eftir þótti hlýða að flytja 40 ára gamalt íslenskt gauragangsóhljóðapopp af myndbandi og átti víst að fyrirstilla stríðssprengingar. Þar með lauk eftirminnilegum safnadegi í Selfossbyggð.