15ta september hófst 25 skipta tónleikaröð þessa vetrar sem tekur enda 6ta apríl 2011. Gerrit valdi að minnast 200 ára afmælis þýska tónskáldsins Roberts Schumanns (1810–1856) með því að fá sópransöngvarann Huldu Björk Garðarsdóttur til að flytja með sér ljóðaflokkinn Frauenliebe und -leben, konuást og -líf sem saminn var árið 1840 þegar Róbert hafði loks tekist að kvænast Klöru Wieck eftir langt tilhugalíf í andstöðu við fjölskyldu hennar. Sungin eru 8 ljóð eftir grasafræðinginn Adelbert Chamisso um þrá ásthrifinnar stúlku, sameiningu hjartnanna, samlífi í hjónabandi og eftirsjá eftir látnum eiginmanni:
Seit ich ihn gesehen / Glaub ich blind zu sein …Er, der herrlichste von allen …
Ich werd ihm dienen, ihm leben / Ihm angehören ganz …
Komm und birg dein Antlitz / Hier an meiner Brust …
Geliebet hab ich und gelebt, ich bin / Nicht lebend mehr.
– Fagurlega sungið og fagurlega tónsett en efnið og meiningin ekki beint eftir jafnstöðuhugsjónum nútímans.
Í dag 22. september kvaðst Gerrit vilja kynna lítt þekktan söngvara, hann væri búinn svo oft að leiða fram þá sem þegar hefðu áunnið sér nafn að verðleikum. Anna Jónsdóttir, menntuð í Rúmeníu og etv víðar í Austur-Evrópu, steig fram og uppskar hyllandi lófatak eftir kraftmikinn og kunnáttusamlegan flutning laga 6 tónskálda. Fyrst var óperuaría eftir Mozart, síðan tvö sönglög Chopins, gamanatriði af samskiptum móður og gjafvaxta dóttur og svo harmþrunginn ættjarðaróður niðurlægðrar þjóðar. Tvö hugþekk íslensk lög: Syngjandi svanur Kaldalóns og Í fjarlægð Karls O Runólfssonar. Þrjú lög eftir hinn bandaríska Samuel Barber (1910–1981) og loks lag eftir ítalann Alfredo Catalini (1854–1893).