miðvikudagur, 22. september 2010

Ljáðu mér eyra á 2ðrum vetri


Gerrit Schuil, slaghörpuleikari og tónstjórnandi, innfluttur íslendingur frá því blauta Hollandi, heldur áfram í vetur að gefa okkur á tóngarðann í Fríkirkjunni hvern óðinsdag í hálftíma stundarfjórðung eftir tólf á hádegi. Óbeðinn færir hann okkur óverðugum heimslist, fræðslu og skemmtun. Allt af ósíngjarnri rausn því hann vill losa okkur úr andlegri kreppu með því að sýna okkur inn í heim óforgengilegra verðmæta.
15ta september hófst 25 skipta tónleikaröð þessa vetrar sem tekur enda 6ta apríl 2011. Gerrit valdi að minnast 200 ára afmælis þýska tónskáldsins Roberts Schumanns (1810–1856) með því að fá sópransöngvarann Huldu Björk Garðarsdóttur til að flytja með sér ljóðaflokkinn Frauenliebe und -leben, konuást og -líf sem saminn var árið 1840 þegar Róbert hafði loks tekist að kvænast Klöru Wieck eftir langt tilhugalíf í andstöðu við fjölskyldu hennar. Sungin eru 8 ljóð eftir grasafræðinginn Adelbert Chamisso um þrá ásthrifinnar stúlku, sameiningu hjartnanna, samlífi í hjónabandi og eftirsjá eftir látnum eiginmanni:
Seit ich ihn gesehen / Glaub ich blind zu sein …
Er, der herrlichste von allen …
Ich werd ihm dienen, ihm leben / Ihm angehören ganz …
Komm und birg dein Antlitz / Hier an meiner Brust …
Geliebet hab ich und gelebt, ich bin / Nicht lebend mehr.
– Fagurlega sungið og fagurlega tónsett en efnið og meiningin ekki beint eftir jafnstöðuhugsjónum nútímans.
Í dag 22. september kvaðst Gerrit vilja kynna lítt þekktan söngvara, hann væri búinn svo oft að leiða fram þá sem þegar hefðu áunnið sér nafn að verðleikum. Anna Jónsdóttir, menntuð í Rúmeníu og etv víðar í Austur-Evrópu, steig fram og uppskar hyllandi lófatak eftir kraftmikinn og kunnáttusamlegan flutning laga 6 tónskálda. Fyrst var óperuaría eftir Mozart, síðan tvö sönglög Chopins, gamanatriði af samskiptum móður og gjafvaxta dóttur og svo harmþrunginn ættjarðaróður niðurlægðrar þjóðar. Tvö hugþekk íslensk lög: Syngjandi svanur Kaldalóns og Í fjarlægð Karls O Runólfssonar. Þrjú lög eftir hinn bandaríska Samuel Barber (1910–1981) og loks lag eftir ítalann Alfredo Catalini (1854–1893).

sunnudagur, 19. september 2010

Stofuhljómleikur norðurslóða 15.15


Indælt haustveður í dag, ekki heiðríkja en stilla og köflótt sólskin. Veður til gönguferðar upp í Blikdal fyrir hádegi, skreppa heim og seðja hungrið en gleðja svo sálartetrið enn meir með því að sækja fyrstu 15.15-tónleika vetrarins í Norrænu húsi, njóta „tónaljóða og dansa úr Austri“ til hálf-fimm. Ekki kunnum við að íslenska heitið sem fólkið í Camerarctica hefir valið sér, bæði er í því stofuhljómlist og norðurslóðabragur, má svo gott heita. Fiðlarinn Hildigunnur Halldórsdóttir virðist stýra samleiknum, Ármann Helgason á klarínettunni sagði frá tónverkum og tónhöfundum, Guðrún Þórarinsdóttir strauk sína lágfiðlu, Sigurður Halldórsson kneikti knéfiðluna. Svo hamraði gesturinn Ingunn Hildur Hauksdóttir á flygil í síðasta verkinu.

Fyrst léku fjórmenningarnir Quartettino frá 1949 eftir Rezső Kókai þar sem vel heyrðist til ungverskra þjóðlaga en þó ekki um of. Þá léku þau kvartett Pendereckis frá 1993 en hann mun vera þekktari fyrir tónverk stærri hljómsveita og kóra. Knéfiðlan tónaði ein sérkennilega fagurt og fyndið smáverk „hljómandi bókstafa“ rússnesk-þýska höfundarins Schnittke, samið 1988 eftir að heilsan hafði brugðist honum. Klarínettan söng þrjú lög Stravinskís frá 1919 sem Ármann kvað hann hafa samið í þakklætisskyni handa manni sem hafði styrkt samning og flutning á Sögu dátans. Og sýnist allvel borgað. Loks fluttu Ármann, Hildigunnur og flygildaman Tríó armenans Katsjatúrjans, verk sem hann á að hafa samið við lokapróf í Moskvutónlistarháskóla rétt fyrir þrítugsaldurinn. Og þá Vesturlandaferð fyrir.

Á dagskrá 15.15 eru alls 8 hljómleikar ýmissa flytjenda fram til 10. apríl á næsta ári. Næst skal gripið í hörpustrengi og slegin málmgjöll 24. október. Verði aðgöngu er stillt í hóf, 1500 á fullgildan mann en ungir og aldnir sæta hálfum prís. Allt lofar það góðu um að ekki verði þessi tónlistarvetur síðri en í fyrra. Birta úti og birta inni. Hvers óskar sálin sér frekar?