Fyrst léku fjórmenningarnir Quartettino frá 1949 eftir Rezső Kókai þar sem vel heyrðist til ungverskra þjóðlaga en þó ekki um of. Þá léku þau kvartett Pendereckis frá 1993 en hann mun vera þekktari fyrir tónverk stærri hljómsveita og kóra. Knéfiðlan tónaði ein sérkennilega fagurt og fyndið smáverk „hljómandi bókstafa“ rússnesk-þýska höfundarins Schnittke, samið 1988 eftir að heilsan hafði brugðist honum. Klarínettan söng þrjú lög Stravinskís frá 1919 sem Ármann kvað hann hafa samið í þakklætisskyni handa manni sem hafði styrkt samning og flutning á Sögu dátans. Og sýnist allvel borgað. Loks fluttu Ármann, Hildigunnur og flygildaman Tríó armenans Katsjatúrjans, verk sem hann á að hafa samið við lokapróf í Moskvutónlistarháskóla rétt fyrir þrítugsaldurinn. Og þá Vesturlandaferð fyrir.
Á dagskrá 15.15 eru alls 8 hljómleikar ýmissa flytjenda fram til 10. apríl á næsta ári. Næst skal gripið í hörpustrengi og slegin málmgjöll 24. október. Verði aðgöngu er stillt í hóf, 1500 á fullgildan mann en ungir og aldnir sæta hálfum prís. Allt lofar það góðu um að ekki verði þessi tónlistarvetur síðri en í fyrra. Birta úti og birta inni. Hvers óskar sálin sér frekar?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli