Var í aðalsal Hafnarborgar fimmtudag á hádegi, Antonía Hevesi kynnti gest sinn Huldu Björk Garðarsdóttur sópransöngkonu. Saman fluttu þær 3 óperuaríur, 2 eftir Verdi og eina Puccinis, sem allar áttu það sammerkt að stúlka söng draumaprinsi sínum hrifningaróð, stundum sakleysið uppmálað, stundum nokkru veraldarvanari.
Gilda dóttir hirðfíflsins Rigolettos hefir hitt myndarlegan stúdent en veit ekki að hann hefir logið til nafns og á bakvið stúdentsklæðin dylst auvirðilegur kvennaflagari, sjálfur mantúahertogi húsbóndi föður hennar. Hún nefnir nafn hans og andvarpar á óperuvísu:
Caro nome che il mio cor /festi primo palpitar,
le delizie dell'amor / mi dêi sempre rammentar!
Hugljúfa nafn sem fær hjarta mitt til að bifast fyrsta sinni,
ávallt verður þú til að minna mig á unaðssemdir ástarinnar.
Svo var sungið fyrsta sinni í La Fenice leikhúsinu í Feneyjum 1851.
Frægð Puccinis byggist á tveimur óperum, La Bohème frá 1896 og Madame Butterfly frá 1904. Hér voru flutt í söng hin hversdagslegu orð saumastúlkunnar Mímíar við skáldið Rodolfo þegar þau kynnast í fyrsta þætti La Bohème:
Sì. Mi chiamano Mimì / ma il mio nome è Lucia.
La storia mia è breve.
A tela o a seta / ricamo in casa e fuori …
Já, ég er köllluð Mímí en heiti réttu nafni Lúsía.
Saga mín er stutt.
Útsaumað í klút eða silki heima og heiman …
Næsta fræga ópera Verdis eftir Rigoletto var La travíata, hin afvegaleidda, 1853, einnig frumsýnd í Fenice.
Þegar í fyrsta þætti hittast þau Víoletta daðurdrós og sakleysinginn Alfredo Germont. Orðin ein hugleiðir Víoletta stöðu sína:
È strano! è strano! in core / Scolpiti ho quegli accenti!
Hve skrítið, hve skrítið, hvernig þessi orð hafa meitlast í hjarta mér.
– en kemst að þeirri niðurstöðu að vitaskuld vilji hún umfram allt vera frjáls:
Sempre libera degg'io / Folleggiar di gioia in gioia.
Alltaf skal ég vera frjáls og veltast um af gleði í gleði.
Að lokum fluttu þær Antónía og Hulda Björk lag úr kvikmynd Disneys um Mjallhvíti og dvergana sjö frá árinu 1937, tónhöfundur Frank Churchill 1901–1942:
Some day my prince will come / Some day we'll meet again
Dag einn kemur prinsinn minn / dag einn hittumst við á ný.
Það var mikið happ fyrir menningarlífið í Hafnarfirði þegar ungverjinn Antónia Hevesi, fædd Szabó, fluttist suður eftir áratugs útlegð í Siglufirði. Þetta mun vera áttundi veturinn sem hún stendur fyrir hádegishljómleik í Hafnarborg á mánaðarfresti. Þá fær hún jafnan söngvara til liðs við sig og píanóið og tónlistin fyllir salinn sem er gæddur furðu góðum hljómburði. Og salurinn fyllist af fólki. — Á fyrsta hljómleik vetrarins fyrir réttum mánuði lá við að húsið spryngi utanaf Antóníu og Garðari Thor Cortes.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli