mánudagur, 25. október 2010

Gerrit klappaði Ágúst upp

Miðvikudaginn 20asta tíunda varð veslingur minn seinn fyrir og kom ekki í hljómleikasal fyrr en Gerrit okkar blessaður hafði mælt sín upphafsorð um efni hádegisstundar, ég heyrði hann þó nefna söngvarann góðkunna Ágúst Ólafsson. Svo steig Ágúst fram og kynnti dagskrá sína sjálfur. Söngrödd hans mikil og sterk fyllti salinn út í hvert horn svo að prýðilegt var að sitja úti við dyr. Öðru máli gegnir um talrödd hans og framsögn, það vantaði talsvert á að hann í talkynningu næði eyrum mínum svo dygði. Svo að það gerðist sem æva skyldi að mér varð ókleift að nema nafn tónhöfundarins. Ég ætla hann franskan því að án efa söng Ágúst tilfinningarík lög við franska texta. Mjög reyndi á hæfni söngvarans en meðleikarans ekki síður og höfðu báðir sóma af flutningnum. Gerrit er vitaskuld óska-meðleikari hvers góðs söngvara og þess naut Ágúst.
Fyrsta lagið eftir hinn meinta franska tónhöfund var einhvers konar erfðaskrá, annað var tileinkað hinni heittelskuðu, hið þriðja aldan og bjallan laut að sjómanns raunum, það fjórða kvöldsöngur til konu. Í aukalagi þurfti söngvarinn að skipta gersamlega um búning raddar og framgöngu, í stað háværra tilfinninga kom undursamlegur þýðleiki Schuberts í laginu Leise flehen meine Lieder / durch die Nacht zu Dir; – komm beglücke mich! (ljóð Rellstabs)
Þar með fór söngvarinn fram eftir skyldugar hneigingar. En salsgestir héldu áfram að klappa með foringjann Gerrit fremstan og hlaut Ágúst að hlýða kalli. Annað aukalag þeirra félaga var serenaða kvennaflagarans don Juans til donnu Elvíru (?? „Deh, vieni alla finestra, o mio tesoro“) – úr óperu Mozarts um Don Giovanni.

Engin ummæli: