Laugardagskvöld 23ja október fluttu nemendur Tónlistarskólans í Reykjavík ævintýraóperuna Hlina í gamla iðnaðarmannahúsinu við Tjörnina, fyrstu sýningu þriggja. Var einkar ánægjulegt að eiga kost á að hlýða á hina ungu flytjendur takast á við samleiksverkefni sem reyndi á þanþol getunnar án þess að ofbjóða. Enda óperan samin sérstaklega fyrir þessa nemendur. Það var nefnilega ágætur kennari skólans, Þórunn Guðmundsdóttir, sem hafði unnið verkið upp úr íslensku þjóðsögunni um Hlina kóngsson og Signý karlsdóttur, samið óperutextann, vel að merkja ort og stóð vel og hnyttilega í hljóðstaf eftir góðum bragreglum, og ekki síst samið tónlistina. Það var einsöngur og alls konar samsöngur og flókinn kórsöngur, forleikur og meðleikur hljómsveitar þar sem einnig brá fyrir einleik á hljóðfæri, svo sem á flautu. Tónlistin var glaðleg sem fór vel við æskuþokka flytjendanna. Skólastjórinn Kjartan Óskarsson stjórnaði hljómsveitinni við flutning óperunnar. Þórunn var sjálf titluð leikstjóri í leikskrá og má ætla að hún hafi haft veg og vanda af æfingum og öðrum undirbúningi. Þónokkur tilþrif voru sjáanleg á sviði til þess sjónleiks sem fullþroska óperuverk skulu vera. Og þótt ótrúlegt megi virðast tókst að finna, útvega og útbúa hæfileg klæði og gervi á flytjendur hvað gerði leikhúslifunina sterkari og sannari en ella hefði verið.
Hér hæfir ekki að nefna nöfn hinna ungu söng- og leikkrafta, hlutverkin voru misstór og gerðu mismiklar kröfur. Hér skal lögð áhersla á gleði samleiksins sem aldrei slaknaði frá upphafi til enda í nær hálfa aðra stund (hlé innifalið í þeirri tímamælingu).
Heiður og þökk fellur fyrst og fremst til Þórunnar Guðmundsdóttur. Fjölþættir hæfileikar eru aðdáunarefni en ekki er síður þakkarverð alúð hennar við uppeldisstörfin.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli