miðvikudagur, 6. október 2010

Ljáðu eyra – Kvaran Kúpereng Kolnídrei

Hér vantar að geta um hvað Gerrit Schuil bar fyrir trygga hlustendur sína 29unda september en í dag kvaðst hann ætla að breyta til, hefði látið mannsrödd syngja síðustu 3 skipti, nú kæmi einleikshljóðfæri.

Gunnar Ævarsson Kvaran birtist með knéfiðlu sína og honum vel fagnað. Tvö 10 mínútna tónverk voru flutt í samleik þeirra Gerrits og Gunnars, annað frá öndverðri 18du öld, hitt frá ofanverðri 19du. Hið fyrra: Pièces en Concert frá árinu 1728, eins konar svíta í 5 þáttum, upphaflega gerð fyrir viola da gamba. Þættirnir Prélude (forleikur), Sicilienne (silileyjardans), La tromba (trumban), Plainte (kveinstafir) og Air de Diable (sem Gunnar hnyttilega nefndi Kölski kyrjar). Höfundur François COUPERIN (1668-1733), af ætt tónlistarmanna – föðurbróðir hans var Louis 4 áratugum eldri, organleikari að ævistarfi en leikinn á sembal og viola da gamba. Bróðursonurinn François var talinn honum miklu fremri og því nefndur 'le Grand' hinn mikli. Þessi yngri Couperin lifði og hrærðist í barok-tónlist síns tíma, var organleikari, kennari og þó einkum semballeikari og höfundur ótal sembalverka og ýmissa annarra tónverka. Konsertpésarnir voru afar áheyrilegir.

Seinna verkið er eins konar hugleiðing þýska tónskáldsins Max Bruch (1838–1920) frá árinu 1881 á Kol nidrei bæn gyðinga, gerð fyrir knéfiðlu og hljómsveit en nú sem oftar flutt með píanóleik. Kol Nidre „öll mín heit“ er ævagamall helgitexti á aramísku og felur í sér eintal trúaðrar sálar um að henni séu fyrirgefin óhaldin loforð gagnvart guði. Jom kippur friðþægingarhátíðin er ársins mesta hjá gyðingum, hræranleg hátíð sem fellur á laugardag að hausti til, í ár á 18. september, næsta ár á 8. október. Föstudagskvöldið næst áður er Kol nidre sungin í samkunduhúsinu. Tónskáldið lagði út af hefðbundnum sönglögum við bænina og hlaut fyrir það tilhæfulausa rykti að hann væri gyðingaættar. Því var tónsmíðum hans úthýst úr 3ja ríki nazista. Þekktasta tónverk Bruchs er fyrsti slaghörpukonsertinn sem hann samdi fyrir þrítugt og enn er tíðum leikinn. Flutningur þeirra G og G var innilegur og áhrifaríkur.

Þeir félagar fluttu aukalag: Le cygne svaninn eftir Camille Saint-Saëns (1835–1921) sem er í rauninni 13ándi og næstsíðasti þátturinn í Karneval dýranna frá 1886. Fljótandi tónar eins og að horfa á álft sem líður um á lygnu vatni, þannig var túlkun Gunnars og harla réttilega.

Engin ummæli: