Hér verður gluggað í nokkur ný skáldrit lausamáls höfunda sem flestir geta víst talist nýliðar á þá grein; sumir þeirra hafa að vísu agað stíl sinn við bundið mál áður sem er náttúrlega þroskandi. Að jafnaði hefir lesturinn verið til ánægju, einnig á þeim bókum sem lítt er hampað eða eru með augljósum byrjendabrag.
Ævar Þór Benediktsson semur bókina „Stórkostlegt líf herrar Rósar og fleiri sögur af ótrúlega venjulegu fólki“, eins konar smásagnasafn. Margar sagnanna mættu heita örsögur eða kannski eru þær meira í ætt við það blaðaraus sem lagnir blaðamenn geta ungað út um allt og ekkert, oftast í gamansömum tón, og erlendis gengur undir heitinu causerie (kåseri á skandínavísku). Höfundurinn hálfþrítugur maður er sagður leiklistarskólagenginn og er ekki ólíklegt að margt af sögunum sé tilkomið sem efniviður í einleik hans sjálfs eða félaga. Með góðu áframhaldi gæti þessi frumraun á bók vísað veg til bitastæðra smáverka fyrir leiksvið. Málfar er vel þokkalegt.
Kári Tuliníus er sagður hafa birt nokkur ljóð áður en sendir nú frá sér skáldsögu „Píslarvotta án hæfileika“. Hún segir frá nokkrum ungmennum sem vilja rísa upp gegn óréttlæti og láta gott af sér leiða en virðist skorta skynjun, krafta og dug. Bókin er fjarri því að vera skemmtileg og mætti heimfæra titilinn upp á höfundinn sjálfan en það er nú reyndar óþarfa illkvitni. Málfar er frambærilegt, ekki víða smekkleysur.
Emil Hjörvar Petersen ritar fyrstu bók í þríleik, að því er segir á titilsíðu, en titillinn er tvíeinn: Saga eftirlifenda. Höður og Baldur. Verkið má heita metnaðarfullt, amk borið saman við fyrri bækurnar tvær sem hér voru teknar fyrir. Varla hægt að segja að hið stóra sé speglað í hinu smáa heldur rennur hér hægstreymandi og breið elfur alheimsframvindunnar, en þegar frá segir atburðum eru þeir í teikni fimbuls og feikna. Höður og Baldur eru ekki sveinstaular í hversdagslegum fjölskyldum lítilfjörlegs lífernis heldur goðsögulegar verur komnar úr sjálfri Eddu, frumbók norrænnar veru. Tíminn er næsta óræður nútími en ljóst að ragnarökkur hefir orðið, alheimsbrestur þar sem flest hefir farist en þó lifað af. Svo er um goðin, einnig þá pilta sem nefndir voru og ýmsar Edduverur þeim tengdar. Þetta lið, að ýmsu leyti gætt mannlegum eiginleikum utan yfir goðlegum kjarna, ferðast um heiminn í farartækjum nýjustu tækni en tekst fangbrögðum vöðvaafls og grimmdar í mikilli ógæfu og þeirri helst að miskunn endanlegs dauða er fjarri, allt hlýtur þetta að lifa áfram í leiðinda tilgangsleysi. Að svo miklu leyti sem lesið varð út úr þriðjungi bókar þegar lesandinn var búinn að fá nóg og þekkir ekki framhaldið. Er það ekki nægur vitnisburður þess að bókin geigar í veigamiklum atriðum? Lesandinn tengir sig ekki við frásögnina, finnst hún ekki koma sér og sínum raunheimi við, leiðist þessi kynjaveröld, finnur of fátt sem gleður en margt sem ergir. Meðal annars mállýti og undarleg stílbrögð: „Enga ógn stafaði af vinnumanninum …“ (33) – engin ógn hefðu flestir skrifað. „… hann heyrði dyninn frá dekkjunum sleikja malbikið … hvítar rákir þvert yfir veginn fitluðu dekkin“ (43) – voru það ekki barðarnir, dekkin á máli höfundar, sem sleiktu malbikið, ekki dynur þeirra? Fitluðu þverrákirnar barðana? eins og þær væru gerandinn í þukli og þreifi? Á baksíðu er upplýst að höfundur 26 ára hafi notið ritmenntunar; ójá, en lestu betur kunningi!
Kristín Eiríksdóttir hefir vakið athygli fyrir frumlegan skáldskap í ljóðformi, nú kemur hún fram með smásagnasafnið Doris deyr. Ánægjuleg bók fyrir vel sagðar sögur, vandvirkni í hvívetna. Höfundur hefir auga fyrir því frásagnarverða, helst að henni fatist þegar hún lengir sögur sínar um of. Málfar er óaðfinnanlegt. Af þessum höfundi verður gaman að frétta í framtíðinni.
Sigríður Pétursdóttir hefir lengi frætt útvarpshlustendur um kvikmyndir enda sérfróð á því sviði. Nú kemur hún fram með fyrsta skáldverk sitt, smásögur í formi bréfaskipta og nefnir Geislaþræði. Bréfaskipti, já má til sanns vegar færa, en nánar tiltekið skrifleg samskipti fólks í tölvupóstum að nútíðar hætti. Þar sem best tekst til verða úr þessu áhugaverðar frásagnir úr mannlífinu en við brennur að heildarmyndin verði dálítið losaraleg og ekki nógu áhugaverð fyrir lesandann. Stíllinn er trúverðugur, lausgopalega orðmargur og laus við skáldlega mælgi en þeim mun meira af hversdagslegu þusi um allt og ekkert. Svona ritar fólk tölvupósta nema hvað hér eru hvergi smekkleysur í stíl eða orðavali. Höfundur ætti að spreyta sig á kröfuharðara frásagnarformi enda þaulvön að setja fram hugsun sína í rituðu máli.
Þá er komið að Ófeigi Sigurðssyni og skáldsögu hans um Jón Steingrímsson eldklerk nýkominn til vetursetu í Mýrdal og skrifar Þórunni sinni norður í Skagafjörð úr eimyrju Kötlu við sandströndina ógnvænlegu. Höfundur er þekktur að athyglisverðum skáldskap svo sem þetta 6 ára kvæðisbrot sýnir:
Hlekkirnir
sem eitt sinn lágu um landið allt
gljáandi fínir og ávallt nýir
kyrfilega fastir saman
og glansandi ankerið djúpt í iðrum Heklu
meðvitund skýr
og yfirsýn himnakrókur …
Oss segir svo hugur að höfundur, fjölmenntaður maður í heimspeki og ýmsum veraldarfræðum, hafi lengi unnið að því langtitlaða verki sem nú liggur fyrir: Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma. Og er skemmst frá að segja að þetta óvenjulega skáldverk sem kalla má djarfa tilraun í okkar ómerkilegu tilveru nútíma málfátæktar, efnahagslegs aðkreppings og óvissu um þjóðleg gildi – að það gerir sig og er markvert framlag til endurmats á okkur sjálfum, stöðu okkar og markmiðum. Við þekkjum, eða megum þekkja guðsmanninn Jón úr sjálfsævisögu hans sem hann semur á gamals aldri sjálfum sér til réttlætingar gagnvart sínum mörgu afkomendum, sérkennilega hreinskilið rit um stórbrotinn mann á hörmungartímum. Það er ekki auðgert að setja saman bók með uppdiktuðum bréfum slíks manns á ungum aldri, láta þau lýsa inn í hugskot hans jafnt sem mannlíf í kringum hann við náttúrufeiknir samtíðarinnar sem þó blikna í samanburði við þau ósköp sem yfir hérað og land allt átti að ganga mannsaldri síðar. Það er fyrst og fremst í krafti tungumálsins sem Ófeigi tekst þetta. Það er rammur íslenskur keimur að hverju orði, mest allt er stílað þannig að lesandinn trúir því að þannig hafi fólk 18ándu aldar brúkað málið, en inn á milli flækjast nútíma orð eða orðatiltæki svo sem til að minna á það að textann ber að lesa og skilja með okkar skilningi sem nú lifum og erum gestir höfundar á þessari horfinni öld til þess að læra af henni að skilja betur okkur sjálf. Ófeigur skáld stílar eins og sá sem valdið hefir: „Landið er ein lifandi skepna. Líkami. Og Þórunn, hve sárt er ekki að hafa þurft að skiljast við þig og okkar guðsmyndarkríli í kroppnum, megi okkar góði Herra vera með ykkur og góð ljósmóðir þá barnið vill hingað koma í okkar snautlegu jarðvist. Við verðum að láta okkur duga sendibréf um sinn og treysta á þá sem ferðast milli landshluta þótt veður séu válynd, köld og tíðin hörð …“ (7) Sjálfur Jón raunveruleikans hefði ekki gert betur en Jón skáldsögunnar gerir hér. Í framhaldinu fer hann að hugsa um ráðagerðir Skúla fógeta um „bögglabera / sendla / pósta“ eins og tíðkist erlendis: „Og svo eru það Taxarnir í Hamborg, þeir þeysast um allt Þýskaland!“ (8) Bögglaberi er skemmtilega tvíátta orð og kann að hafa ratað í munn manna á hvaða öld sem er en fráleitt að orðið taxi hafi verið til á öld séra Jóns, jafnvel ekki í erlendum málum heldur. „Manstu í fyrra þegar ég fékk bréf frá Vísindafélaginu í Kaupenhöfn á einu máli svo skrýddu þyrnirósum að vart sást glitta þar nokkurs staðar í merkingu? Það var sannarlega skrifað í þeim gamla stilum fulminantem eða þrumustíl. Þar var sagt að þeir hefðu kynnt mig fyrir Frú Guðfríði frá Leipzig og hennar mónöðufræðum. Það finnst mér allskostar einkennlegt að þeir vilji eigna sér þekkinguna af slíku kappi, þá finnst mér eignarrétturinn orðinn vítt hugtak, að ég skili af mér verkinu sem þeirra skósveinn …“ (171) Þarna er Jón skáldsögunnar að diskútera heimspeki sinnar aldar við sína velmenntu ektafrú. En orðin eru dýr. Eignarréttur er vissulega gamalt orð í íslenskri tungu en hugtak er nýsmíði um það bil 100 árum eftir dag séra Jóns Steingrímssonar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli