föstudagur, 12. nóvember 2010

Allskonar ást Maríusar

Maríus Hermann Sverrisson 37 ára tenórsöngvari sonur Margrétar Jóhönnu Pálmadóttur stjórnanda Vox feminae söng um „allskonar ást“ á hádegishljómleik Antoníu Hevesi í Hafnarborg 4ða nóvember. Maríus fór létt með það, menntaður í bæði söng og leiklist í ýmsum löndum og þrautþjálfaður söngleikjamaður á meginlandi álfunnar. Fyrst var föðurlandsástin, hægfljótandi dálítið hátíðlegur volgusöngur keisaraerfingjans Alexej úr söngleiknum Der Zarewitsch eftir Franz Lehár frá 1927, Allein, wieder allein. Sannarlega ólíkt léttúðarsöngvum úr þekktari óperettum Lehárs svo sem Kátu ekkjunni eða Brosandi landi. Síðan kom ástin til heimsborgarinnar, aðsetur tóngyðjunnar lífsgleðjandi: Wien, Wien, nur du allein /sollst stets die Stadt meiner Träume sein, lag og texti 1912 eftir embættismanninn Rudolf Sieczynski. Eftir það sungið uppá amrísku: Úr breiðvangs söngleiknum Mitt ljósa man 1956 eftir Fredrick Loewe og síðan kom Saga úr Vesturbænum, fyrst uppfærð á Breiðvangi 1957, tónlist Leonards Bernstein, 3 söngvar: Í kvöld, María og einhverstaðar. Allt afar snoturlega gert hjá söngvara og meðleikara; rödd Maríusar er þýð og mjúk, velhljómandi hvort sem er á veikum tóni eða sterkum. Aukalagið var glimrandi, Gern hab ich die Fraun geküßt úr óperettunni Paganini eftir Lehár frá 1925.

Engin ummæli: