föstudagur, 12. nóvember 2010

Herskáli, Smalaskáli, Tryggvaskáli – að 70 árum liðnum

Safnahelgi var á Suðurlandi dagana 5ta til 7unda nóvember. Þá var talsvert um að vera í þéttbýlisstöðum fjórðungsins og jafnvel uppum sveitir einnegin. Því bar vel í veiði að skreppa austur yfir Fjall á laugardeginum og athuga hvað í boði væri á Selfossi.

(Já, það eru ekki allir sunnlendingar hrifnir af þeim opinberu heitum sem tvö stór sveitarfélög Flóans hafa fengið í nútímanum og þykir ýmsum hvorugt réttnefni: Árborg er ekki borg, hvorki í hinni gömlu landfræðilegu merkingu né síðari merkingu um þéttbýlissamfélag stærri gerðar. Og ankannalegt að þorpin niðri á ströndinni séu kennd við ána Ölfusá sem vissulega rennur í gegnum Selfoss og skilur neðar Breiðumýri frá Ölfusfor. Enn skrítnara er að nefna eystri hluta millifljótalandsins (mesópótamíu Íslands) Flóahrepp og nái aðeins yfir helming Flóans. Skyldu þeir Flóahreppsmenn ala með sér útþenslustefnu og huga á landvinninga í ytri hlutanum?)

60 manna tyrfingsfar rúmaði ekki alla sem vildu fræðast af Þóri Vigfússyni í Kaldaðarnesökuferð svo að bæta þurfti við sjálfgengum kálfi þar sem Árni Sverrir hátalaði til fólks. Ekki voru skemmtandi og fræðandi frásagnir skornar við nögl í ferðinni, hvorki í bílnum né heldur á hlaðinu í Kaldaðarnesi þar sem fólk nýtti sér balann sem bæjarhóllinn gamli nú myndar og trónir þar innantómt kastalahús herra jarðarinnar sem hér er ekki drottinn upphæða heldur Jörundur Gauksson og hefir víst enn aðsetur sitt niðri í Hreiðurborg. (Innan sviga skruppu ýmsir niður í kirkjugarð sem enn nýtist þótt kirkjan hafi verið tekin niður í öndverðri tíð Sigurðar sýslumanns; þar liggur hann sjálfur grafinn og hans fólk, einnig Jörundur Brynjólfsson og hans fólk og Ingibjörg ekkja Gauks hefir þegar fengið áletrun á legstein, vantar aðeins dánardægrið enda hún bráðlifandi í Kálfhaga.) Á bæjarhólnum var rifjað upp að 10. maí 1940 þegar breski herinn steig á land í Reykjavík hélt hersveit þegar austur í Flóa og beint að Kaldaðarnesi þar sem Lýður hreppstjóri Guðmundsson í Litlu-Sandvík stóð fyrir axjón á búi þeirra sýslumannsbarna sem þar höfðu séð um búrekstur eftir dag foreldranna (Sigurður Ólafsson lést 1927, Sigríður Jónsdóttir 1932). Jón kaldi Sigurðsson (skrifstofustjóri alþingis) var náttúrlega á staðnum og kunni einn þar staddra íslendinga að tala ensku, gat leiðrétt misskilning á báða bóga, þann hjá bretum að hreppstjórinn með húfuna væri þýskur foringi, hinn hjá íslendingum að aðkomumenn væru þýskir hermenn. Hvar er flugvöllurinn? – þarna í mýrinni, kvað Jón. Hún leit ekki mikið öðruvísi út þá en nú, 70 árum síðar, þegar ekkert sést þeirra mannvirkja sem þarna voru gerð á vegum breska hersins á árunum 1940–43. Þá má segja að heil borg hafi risið á túni og engjum Kaldaðarness og enginn bóndi hélst þar við búskap fyrr en eftir stríðslok 1945. Skrítin atvik ullu því að herflugvöllur var gerður í Kaldaðarnesi, það að þýskur flugmaður hafði lent þar rellu sinni árið 1920 (fyrirvari um ártal!) Þetta vissu bretar og gerðu því skóna í öndverðu stríðinu að þýski flugherinn væri um það bil að setjast þar á fullbúinn flugvöll. Þór minnti á það þegar einn danskurinn á Selfossi, Malling Andreasen, lenti í ketilsprengingu og slasaðist lífshættulega en var tjaslað saman í hersjúkrahúsinu mikla í Kaldaðarnesi, fékk málmplötu á höfuðkúpuna til að halda innvolsinu í skefjum. Ein framkvæmdanna var olíuleiðsla á mjórri óakfærri brú yfir Ölfusá nálægt gamla ferjustaðnum milli Kaldaðarness og Arnarbælis en brúna tók af í miklum flóðum viku af mars 1943. Þá fór flugvöllurinn á kaf í vatn og margir herskálanna voru umflotnir, hinn horski her flúði sem fætur toguðu upp að Selfossi. Í kjölfar þessa dró úr mikilvægi Kaldaðarness en bandaríska setuliðið setti mikinn kraft í byggingu flugvallar og herstöðvar á Miðnesheiði. Að öllum þessum frásögnum loknum var haldið heim á leið og tali snúið að öðrum efnum svo sem krossinum helga sem stóð í pápískri tíð í Kaldaðarnesi og svo mikil helgi var á að fólk flykktist á staðinn til að njóta blessunar en aðrir sem ekki komust alla leið sóttust eftir að sjá til hans úr fjarlægð svo sem konur þær úr Selvogi sem Kvennagönguhólar utan í Selvogsheiði eru við kenndir. Verður þó að segjast að fráneygar hafa þær konur verið sem höfðu veður af krossinum svo langt að, jafnvel þótt hann væri borinn út úr kirkjunni í Kaldaðarnesi á góðviðrisdögum. Gissur Einarsson fyrsti biskup lútersku (1540–48) lét taka krossinn niður og fela svo að fólk hætti að leita líknar hjá auvirðilegum hlutum, og hvað gerðist? Biskup varð skammlífur og dó. Eftirmaður hans um 8 ára skeið Marteinn Einarsson mun hafa látið krossinn í friði en sagði af sér biskupsdómi í hendur skálksins Gísla Jónssonar sem gerði betur en Gissur, lét brjóta krossinn og brenna brotunum. Hvað gerðist? – hann dó (að vísu þrem áratugum síðar).

Komin í Selfossbyggð aftur var ekið út á flugvöllinn þar og gengið í flugskýli Einars Elíassonar í SET (lagnavöruframleiðsla) og Jóns Guðbrandssonar dýralæknis. Þar eiga þeir félagar ýmsa dýrgripi loftsins og landsins vega og merkilegt safn stríðsminja úr Kaldaðarnesi sem Einar hefur annast og kallar nú Ekki-safn. Þar mátti sjá sérlega ófrýnilega dráttarvél sem sat þar áratugum saman og ryðgaði í mýrarkeldu og margt fleira gott, aðallega smáhluti reyndar. Staðarmaður sagði mér að hann hefði ekki vitað um þetta safn en var þó kunnugt um að Einar hefði eitthvað verið að grúska í svona gömlu dóti. Klukkan tvær mínútur yfir tólf var aftur komið á upphafsstað fyrir framan gamla kaupfélagið sem nú kallast ráðhús en beint upp af biðstöð strætisvagnsins er gengið inn í bókasafn staðarins. Það var opið og til sýnis ýmislegt úr stríðsminjasafni Tryggva Blumensteins, herklæði, myndir, skjöl, m. a. sendibréf með útklippti gati ritskoðunar. Tryggvi mun vera þrítugur maður sem hefur safnað slíku efni frá 10 ára aldri upplýsti formælandi menningarmálanefndar kaupstaðarins Kjartan Björnsson.

Mili klukkan 2 og 4 var dagskrá í Tryggvaskála (Gunnarssonar) þar sem flutt var margvíslegt efni tengt hernáminu fyrir 70 árum og hernámsárum í Flóanum, söngur, kvikmynd, erindi, upplestur, frásagnir.
Skúli Sæland sagnfræðingur ofan úr Tungum hafði tekið saman erindi með sýningu skjámynda sem fæstar sáust um aðdraganda hernáms og fyrstu dægrin. Fróðlegt nokkuð enda Skúli vel að sér um styrjaldarárin.
Sýnd voru myndskeið Kadóríans frá Hraungerði og Ólafur Sigurðsson fréttamaður sagði deili á börnum sem sáust á vappi. Milli þeirra atriða sagði Páll bróðir Ólafs (Palli prests, synir séra Sigurðar Pálssonar 1901–1987 og Stefaníu Gissurardóttur 1909–89) endurminningabrot frá stríðsárunum en hann var 6 ára þegar herinn kom. Þjóðverjinn Herr Pripp kom í Hraungerði og dvaldist þar nokkra daga, þóttist vera sérfræðingur í katólskum helgisiðum en séra Sigurður mun hafa kímt að þeirri fullyrðingu. Var allt óljóst um erindagerðir Pripps í landinu en hann var lukkulega horfinn rétt áður en bretar stigu á land. Tvær óléttar stúlkur fengu um skeið hæli í Hraungerði, fyrr María nokkur, fylgikona skipverja á Gullfossi sem varð innlyksa í Kaupinhöfn við hernám Þjóðverja. Hún kynntist vinnumanni á næsta bæ og gat lagst þar við stjóra. Hin síðari var Sigríður Kristinsdóttir og ól barn sitt hjá Stefaníu prests, Magga ljósa tók á móti sveini sem síðar varð bílasnillingurinn Stjáni meik. Faðirinn var enginn annar en Jón Kristófer kadett sem um skeið hafði búið í London, gengið í breska herinn og kom hingað túlkur með hernámsliðinu. Þar gekk honum í fyrstu allt í haginn en svo seig á ógæfuhlið eins og jafnan var hjá honum á þessum árum, hann féll í drykkjuskap og gat ekki sinnt starfi sínu. Bretar urðu illir við að missa túlk sinn en Jón tók það ráð að strjúka úr hernum. Við liðhlaupi lágu þungar refsingar og leituðu nú bretar drottinssvikarans. Eins og vita mátti og bretar eða þeirra íslensku hjálparkokkar giskuðu á leitaði kadettinn skjóls á heimili barnsmóður sinnar í Hraungerði. Þar var honum vel tekið enda hafði hann frá mörgu að segja og var glæsimenni þegar hann mátti sín. Út í frá var hann Jón vinnumaður og gekk með heimilisfólki að störfum. Ef grunur var á að bretar kæmu var Páll litli látinn fara með hann út á tún í hólinn Smalaskála og skyldu þeir fela sig þar í holu uns hættan væri liðin hjá. Bretarnir leituðu um allan bæ og útihús, fóru svo í kirkju og hlýddu á guðsorð hjá prestinum; sjálfsagt hefir Stefanía hin söngglaða ekki látið sitt eftir liggja. Gaman hefði verið að heyra hvernig presturinn, þjónn sannleikans, hefði svarað spurningum breta um það hvað hann vissi um kadettinn, svo sagði Páll um föður sinn. Að lokum þreyttist fólk á að hafa þennan hættulega mann barnsföður vinnukonunnar á bænum, honum var komið norður yfir Hvítá hjá Oddgeirshólum, kvaðst Páll ekki vita hvað um hann hefði orðið í Grímsnesinu, en nokkuð er það að kadettinn lifði af og lenti aldrei í klóm breta. Ýmislegt fleira bar á góma í gagnorðri frásögn Páls vélvirkja; enn man hann þýsku flugvélina fljúga lágflug yfir Flóann, þá sem skaut skotum að bresku hermönnunum við Ölfusárbrú 9unda febrúar 1941.
Ólafur fréttamaður kvaðst muna minna eftir stríðsárunum en Páll bróðir enda yngri. Hermdi þó orðaskipti foreldra sinna þegar Sigurður hringdi í símstöðina á Selfossi og fékk svar á ensku. Er það ekki gott, spurði Stefanía. Það kunna margir þjóðverjar ensku, ansaði prestur. Þetta kynni að hafa gerst á hernámsdaginn. Ólafur vakti athygli á staðsetningu flugvallanna sem bandamenn gerðu hér í stríðinu með tilliti til aðflugs til landsins: Kaldaðarnes hentaði bretum komandi úr suðri en Keflavík könum sem flugu að úr vestri. Allt fram að þotuöld sem hófst 1959 komust kanar ekki almennilega heiman frá sér til herstöðva sinna á meginlandi Evrópu án viðkomu og heppilegasta millilendingin var á Íslandi.
Sævar Logi Ólafsson sagnfræðingur á Héraðsskjalasafninu gerði tilraun til að flytja erindi um loftvarnir á stríðstímanum af hálfu íslenskra yfirvalda, aðallega í Reykjavík. Á Selfossi varð til loftvarnarnefnd undir forystu Páls sýslumanns Hallgrímssonar eftir „loftárásina“ í febrúar 1941. Óvíst um athafnasemi þeirrar nefndar.
Hákon Sigurgrímsson frá Holti (lengi framkvæmdastjóri stéttarsambands bænda og fulltrúi í landbúnaðarráðuneytinu) las upp úr rétt óútkominni endurminningabók sinni, Svo þú ert þessi Hákon. Snoturlega lesið.
Síðan steig fram Sigfús Kristinsson byggingameistari og sagði fram blaðalaust ýmsar minningar sínar um hernámið og stríðsárin en hann var 8 ára þegar breski herinn kom, fyrir 70 árum. Þótti áheyrendum gott að fá að hlæja að frásögnum hans og skrítlum.
Að lokum flutti Guðni Ágústsson mjólkurfræðingur ræðu með tilheyrandi tilburðum í handsveiflum og orðkynngi og dvaldi meira við pólitíska leistann sinn en sveitaminningar; að vísu getur hann ekki munað blessað stríðið sem færði íslendingum auð og tækni, eins og hann rakti, þar eð því lauk nokkru áður en hann skaust inn í barnahópinn á Brúnastöðum. Hins vegar mótaðist Guðni nokkuð af kaldastríðsárum; lét þess getið að hann hefði sjálfur ungur maður verið andstæðingur hernáms og fyllst hugsjónum um herlaust land en menn hlytu þó nú sem áður að átta sig á stöðu Íslands í veröldinni. Lýðveldið hefði verið stofnað 1944 með leyfi Bandaríkjanna, menn hefðu beinlínis beðið skeytis Roosevelts á Þingvelli áður en hægt var að lýsa yfir lýðveldistöku, og langa stund stóðu íslendingar undir verndarvængnum að vestan. Evrópa hafði í fyrstu ekkert að bjóða annað en sundrungu, mannvíg og eymd. Svo rétti hún úr sér en margt varhugavert í alþjóðapólitíkinni, ýmsir fylltust vonardraum um rússa en hvar er hann nú, Sigurjón? (og leit hvössum augum á aldraðan flóamann sem síst átti von á slíku skeyti). Nú steðja enn ógnir að þjóðinni, að þessu sinni sú mest að stórríkið Evrópa gleypi okkur og því eðlilegt að við lítum aftur vestur um haf til að fá styrk til sjálfstæðis og farsældar. Það væri margt að læra af sögu stríðsáranna og eftirtímans.
Inn á milli atriða var skotið músík sem Tónsmiðja Suðurlands stóð fyrir, Stefán Þorleifsson skólastjóri lék á píanó og Ásdís Ýr söng með stríðsárasöngva, þokkalega. Þar á meðal hinn fræga hermannasöng um Lili Marleen við ljósastaurinn sem Marlene Dietrich gerði heimsþekktan á stríðsárunum í herbúðum bandamanna. (Ekki víst að allir átti sig á því að lag og ljóð eru þýsk; skáldið Hans Leip orti kvæðið í varðstöðu við herbúðir í Ketilsgötu í Berlín rétt áður en hann skyldi fara á austurvígstöðvarnar í fyrra stríði en tveim áratugum síðar samdi Norbert Schulze lagið sem kabarettsöngkonan Lale Andersen söng inn á hljómplötu 1939 og var mikið spiluð í hernámsútvarpinu Soldatensender Belgrad 1941 og síðar; náðist um alla Evrópu.)
Um frammistöðu talenda á samkomunni í Tryggvaskála má fullyrða að hún stóð í öfugu hlutfalli við skólalærdóm þeirra. Umhugsunarefni; gerist víst víðar en í Flóanum.

Síðan var einskonar framhaldssamkoma í leikhúsi þeirra selfyssinga í gamla iðnskólahúsinu við Sigtún og stóð í rúma klukkustund. Erlingur Brynjólfsson fór yfir styrjaldarsviðið og skók loftvarnarbyssueftirlíkingarskellu Ólafs í Forsæti svo að áheyrendur vöknuðu við, sýnd var 12 mínútna Íslandskvikmynd amríska armenans Kadóríans frá 1943 í fyrsta skipti hérlendis (en brot úr þeirri sömu höfðu verið á dagskrá í Tryggvaskála) og leikfélagið lék nokkur atriði úr hernámssjónleik Jóns Hjartarsonar Brúin (milli heima?) Á undan söng kór Tónsmiðjunnar samanstandandi úr 3 körlum og 10 konum á sína vísu og á eftir þótti hlýða að flytja 40 ára gamalt íslenskt gauragangsóhljóðapopp af myndbandi og átti víst að fyrirstilla stríðssprengingar. Þar með lauk eftirminnilegum safnadegi í Selfossbyggð.

Engin ummæli: