laugardagur, 13. nóvember 2010
List sem hrífur til betri heima
Tenórsöngvarinn Gissur Páll Gissurarson kom fram í eyranu hjá Gerrit Schuil miðvikudaginn 10. nóvember og söng nokkur ljóðalög Schuberts, í fyrsta skipti opinberlega að því er hann sjálfur sagði, en Gissur er kunnur að ítölskum söng enda menntaður með þarlendum til margra ára. Hann hóf sönginn á afar hægu og hátíðlegu, allt að því sorgþrungnu lagi sem hér verður ætlað að hafi verið bænarákall á allra sálna messu: Liebevolle Mädchen Seelen / deren Tränen nicht zu zählen / die ein falscher Freund verließ / … ruh’n in Frieden! Sem sé dulbúinn ástarsöngur, einskonar inngangur að Ständchen: Leise flehen meine Lieder / Durch die Nacht zu dir / In den stillen Hain hernieder / Liebchen, komm zu mir! – sem einnig gengur varfærnislega fram, ljóðsöngvarnir líða ljúft á næturþeli áður en viðfang ástarinnar er örmum slungið. Þriðja lagið kann að hafa verið við ljóð Rückerts: Du bist die Ruh / Der Friede mild / Die Sehnsucht du / Und was sie stillt. Hægt og svífandi en samt nokkuð sterkt. Næst spriklaði silungurinn: Ein Fischer mit der Rute / Wohl an dem Ufer stand / Und sah's mit kaltem Blute / wie sich das Fischlein wand. Og allt í tómu fjöri en reyndar líka harmi yfir vonsku heimsins. Schubert-sveigurinn endaði á lofgerð til hljómlistarinnar: … in wieviel grauen Stunden … Hast du … mich in eine beßre Welt entrückt! Síðasta kynnta lagið var af heimavelli söngvarans, una furtiva lagrima úr l’Elisir d’amore eftir Gaetano Donizetti frá 1832, fáum árum eftir ótímabæran dauða ljóðsöngvasnillingsins Schuberts. Munurinn kannski ekki síst sá að áheyrandinn lifir tilfinningar Schuberts í sjálfum sér, finnur sannindi þeirra, en Donizetti og öll þau ítölsku snoturmenni sveifla sér í kringum tilfinningalífið, opna einn og einn glugg og það virðist satt sem maður sér en það er einhvern veginn eins og utan við hann sjálfan. Sannarlega ekki við flytjendur eyrans að sakast um það! Aukalag var flutt sem ekki þótti taka að kynna, þýskt óperulag að virtist vera. – Kannski leyfist að geta þess að nefndur Gissur góðsöngvari er bróðurson bræðranna Páls og Ólafs frá Hraungerði sem nefndir voru í frásögn af 70 ára hernámi í Flóa hér á vefsíðunni; þar með er Stefanía hin söngglaða prestsfrú Gissurardóttir amma hans.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli