Rétt einn ganginn var Gerrit Schuil í hlutverki alþýðufræðarans á hádegishljómleik sínum, eyranu, óðinsdag 17. novembris árs 2010 vors tímatals. Hann fræddi fólkið annars vegar um Maríu Stuart skotadrottningu sem var hálshöggvin 1587, hins vegar um tónskáldið Róbert Schumann sem lést á geðveikrahæli 1856. Kennimark allrar góðrar alþýðufræðslu er að hún hvetur fólk til sjálfsnáms og víðari útsýnar. Því er hér farið aðeins víðar um völl en Gerrit hafði tíma til að gera viðvíkjandi atvikum og sögu.
María dóttir Jakobs 5ta skotakóngs og franskrar spúsu hans fæddist í sama mund og faðirinn lést 1542. Hún var því eins árs krýnd drottning skota en skoskir aðalsmenn og þing þeirra fóru með stjórn ríkis og að þeirra ráðum og móður hennar, sumpart vegna skæra við granna sunnan landamæra, var telpan send 6 ára til Frakklands trúlofuð konungssyni þar, til uppeldis hjá móðurfólki. 10 árum síðar giftist María Francis dauphin frakka og komust þar til ríkiserfða 1559 við lát Hinriks annars. Árið eftir lést móðir Maríu í Skotlandi og stuttu síðar misssti María mann sinn, hinn unga frakkakóng Francis II, banamein hans var eyrnabólga; þau barnlaus. María mátti nú heita fulltíða, fríð sýnum, há vexti, greind, menntuð talandi 4 tungumál, vel íþróttum búin, friðelskandi, furðu laus við hleypidóma þótt alinn væri upp í kaþólsku, kunni mælskulist og orti ljóð. Frænka hennar Elísabet dóttir Hinriks áttunda, sem hafði sagt skilið við páfadóm og Önnu Boleyn einnar af hans mörgu konum sem hann lét gera höfðinu styttri, var nýorðin drottning á Englandi og foringi mótmælenda en þeir höfðu orðið undirtökin í Skotlandi einnegin. Amma Maríu, Margrét Tudor drottning Jakobs fjórða skotakóngs, var systir Hinriks áttunda; þær voru því skyldar að öðrum og þriðja drottningarnar María og Elísabet fyrsta. Maríu Stuart fýsti nú til heimkynna sinna í Skotlandi og hélt þangað 1560 þótt hún mætti vita að hennar biðu miklir erfiðleikar og hættur, bæði vegna óeiningar í eigin ríki og afskipta af hálfu englendinga. 5 árum síðar giftist hún margskyldum frænda sínum Hinriki Stuart, bæði komin af Margréti Tudor. Þau eignuðust soninn Jakob sem lifði af róstutíma og átti eftir að ríkja yfir bæði Skotlandi og Englandi. Hinrik var mesti ribbaldi og lét vega einkaritara drottningar vegna afbrýðisemi en var svo sjálfur drepinn í samsæri aðalsmanna. María, til að halda völdum og þyrma lífi sonar síns, giftist fljótlega aftur öðrum ribbalda en skoskir aðalsmenn gerðu enn uppreisn, fangelsuðu drottningu og neyddu til að afsala sér völdum, formlega til sonar síns eins árs en í reynd til hálfbróður síns sem varð ríkisstjóri en skammlífur. Maríu tókst að losna úr dýflissu skota, dró saman her og reyndi að berjast til valda að nýju en beið ósigur. Hún flúði þá suður yfir landamærin 1568 og leitaði skjóls hjá frænku sinni Elísabetu Englandsdrotningu. Sú var full tortryggni í garð hinnar glæsilegu kaþólsku konu sem taldist hafa erfðarétt að ensku krúnunni og setti þegar varðhöld um Maríu. Næstu 19 árin var svo María í haldi Elísabetar, mismunandi ströngu, en að lokum, eftir nokkurra mánaða réttarhöld, var hún tekin af lífi fyrir drottinsvik í febrúar 1587 ekki fullra 45 ára að aldri. Elísabet treysti sér aldrei til að hitta og horfast í augu við frænku sína og að henni látinni reit hún undarlegt bréf til Jakobs sonar hennar harmandi dauðdagann og taldi hann „slys“. 16 ár í viðbót átti Elísabet meydrottning eftir að sitja á valdastóli en eftir hennar dag varð sá sami Jakob Maríuson eftirmaður hennar á þróni, Jakob fyrsti englakóngur. Eitt hans fyrsta verk var að láta flytja jarðneskar leifar móður sinnar til Westminster Abbey og skrínleggja þær þar við hlið Elísabetar.
Er svo lokið forspjalli að 5 laga söngvasveig Róberts Schumanns „Kvæði Maríu Stúart drottningar“ sem talið er að hún hafi sjálf ort á markverðum tímamótum ævi sinnar og þýtt hafði á þýsku shakespeare-fræðingurinn Gisbert Vincke 1813–1892. Eins og Gerrit hefir ítrekað nefnt voru í sumar leið 200 ár frá fæðingu Róberts, eins hins helsta tónskálds rómantíska tímabilsins. 15. september flutti Hulda Björk Garðarsdóttir með Gerrit ljóðaflokkinn Frauenliebe und -leben í eyranu en nú var komið að Auði Völu Gunnarsdóttur sópran að syngja um hjartaskerandi nauðir drottningarinnar fögru. Báðir ljóðaflokkarnir lúta að örlögum kvenna, þann fyrri um Kvennaástir tónsetti Schumann nokkuð snemma á ferli sínum, 1840, þegar hann endanlega hafði þóst hafa höndlað lífshamingjuna með því að kvænast hinni hæfileikaríku hljómlistakonu Klöru Wieck, en hinn síðari um líf skotadrottningar tónsetti hann 1852 þegar farið var að halla undan fæti fyrir honum, hann hafði misst hljómsveitarstjórastöðu sína í þuslaraþorpinu Düsseldorf og einkenni andlegrar truflunar voru skammt undan. Verkið er hans síðasta fyrir einsöngsrödd.
Söngur Auðar og meðleikur Gerrits var lét fáar óskir óuppfylltar. Fyrsti söngur Maríu Frakkland kvatt (1560) með trega: Ade, mein fröhlich Frankenland / Wo ich die liebste Heimat fand. Annar söngur bæn skotadrottningar um heillir til handa nýfæddum syni (1566) með andagt og stunum. Þriðji söngur orðsending til Elísabetar Englandsdrottningar þegar María völdum svipt er á leiðinni suður (1568); segist hræðast margt en ekki sína „kæru systur“: So bin auch ich bewegt von Furcht und Sorgen / Vor euch nicht, Schwester. Doch des Schicksals Walten / Zerreißt das Segel oft, dem wir vertraut. Fjórði söngur sonnettan Kveðja til heimsins (1586) þegar María sér að hverju fer, segist frábitin metorðum en eigi eina ósk: Bald geht mit mir zu Grabe Hass und Streit. Fimmti söngur bæn á banastund (1587) til endurlausnarans: … ich hoffe auf dich / … nun rette du mich!
Nú sneru þau Gerrit og Auður sér að óperum; hún söng maríubæn, ave maria, Desdemonu úr 4ða þætti Óþelló Verdis (1887), en aðstæður eru svipaðað og í lokabæn Maríu skotadrottningar, dauðinn er á næsta leiti. Einnig fluttu þau aðra ítalska aríu, einnig eftir Verdi að vér ætlum.
Lokalagið var úr Tannhäuser Wagners (1845/1861), geysierfitt til söngs og ekki var spilverkið síður kröfuhart og var sem mörg hljóðfæri hljómuðu í senn. Eftirminnilegur hljómleikur daginn þann.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli