miðvikudagur, 10. nóvember 2010
Strengleikar í eyra
Liðinn var hálfur mánuður frá síðasta „eyra“ þegar Gerrit birtist 3ja nóvember framan við grátur fríkirkjunnar (27. október hafði „eyrað“ dottið af eða út vegna veikinda) og kallaði á fund sinn og okkar áheyrenda Elísabetu Waage með hörpuna og lék einleik af kunnáttu smekkvísi og smitandi tónelsku. Fyrst barokklag eftir William Croft 1678–1727 organista við Westminster Abbey. Svo galdraði hún fram hrævarelda belgans Alphonse Hasselmans 1845–1912 sem ólíkt barokklaginu var samið fyrir hörpu. Þá flutti Elísabet kveðju trúbadúrs til föðurlands síns eftir velska höpuleikarann John Thomas 1826–1913. Noktúrna eftir Míkjál Glinku (Михаи́л Гли́нка) 1804–1857 hljómaði fagurlega, og loks flutti hún þjóðlagið sem haft er við kvöldbæn Hallgríms heitins Péturssonar og Míkael Jón Clarke hefir útsett. Innámilli sagði hörpuleikarinn okkur frá hljóðfæri sínu, hvernig það hefði þróast úr ýmsum frumgerðum og fengið núverandi mynd snemma á 19ándu öld, sína 47 strengi og 7 fótstig. Strengina væri hægt að gera úr ýmsum efnum en hún hefði mestar mætur á girni úr sauðskepnum. Sannarlega gott til þess að vita að skepnur þær skuli þó vera til einhvers gagns mönnum því til átu eru þær ekki fallnar að smekk meirihluta heimsbyggðarinnar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli