miðvikudagur, 10. nóvember 2010

Tónfjandskapur

Það er illa gert fólki og flytjendum að fara upp með hljómleik í Skólavörðuholtsgímaldinu sem kennt er við Hallgrím heitinn passíusálmaskáld. Kirkjan sú kann að vera musteri trúarinnar sem skal engu skipta mannkind upp til hópa en hljómleikamusteri er hún ekki. Þar drukkna allir hreinir tónar mannsraddar og viðaminni hljóðfæra en organsins mikla sem þurfti snjöllustu smiði sinnar greinar í veröld víðri til að hljómaði skikkanlega í bergmálsgeimnum ógurlega. Og ljótleiki byggingarinnar, innan sem utan, þvílíkur að hroll setur að öllum sem komast þar í nálægð svo að annað hvort þarf ógn af trúarhita eða samsvarandi tilfinningakulda til að menn sleppi óskaddaðir frá. En við þessar ömurlegu aðstæður starfar sá mæti hljómlistamaður Hörður Áskelsson og fékk það hlutverk laugardaginn 31. október að láta mótettukór sinn glíma við hið tónspillta umhverfi með aðstoð ljúflingsins Einars Jóhannessonar klarínettuspilara. Við eðlilegar kringumstæður hefði ugglaust komið í ljós, réttara sagt komið til hljóðs, að flutt voru býsna góð tónverk mörg hver (hér skal einkum undanskilin raunarolla Jóns Þorleifssonar svo mikla samúð sem sá raunaseggur á skilið) og kórinn muni skipaður hæfileikafólki sem hefur þjálfast til listræns bardaga. Dagskráin reyndar lífsfjandsamlega samansett eins og heljarlíki húss og ömurð kristni hefðu ungað út púka til að framkalla þann „dauðans blæ“ sem þar lá yfir vötnum. Það þarf ekkert minna en meinkristinn mann til að svífa upp á yndislendur tónelskunnar við ákallið Komm süßer Tod.

Þrautaráðið var að grúfa sig niður í prentaða efnisskrá þar sem gat að lesa töfrum vafin orð góðskáldanna Stefáns Harðar Grímssonar og Jónasar Hallgrímssonar: Þjóðvísur þess síðar nefnda – Sofinn er fífill / fagr í haga / mús undir mosa / már á báru … Húmbrot Stefáns Harðar: Hve hljótt / flögra þau fiðrildin … Hve hljótt / hvarflar fræið á hvirfilvæng. Og úr næturbón hans: Andvari ferðastu ljúft / um þínar mýrar / … gáraðu ekki tjarnir. – Þá hvarf um stund úr vitundinni steinsteypukuldinn og kristninnar heljarást; einstaka tónbrot hitti í liðinn.

Engin ummæli: