Síðasti mánuður ársins er yfirleitt snauður að veraldargæðum í tónleikahaldi. Jafnan er flutt einhver síbylja þess sem menn helga himnaföður og syni hans sem kann stundum að hafa skemmtunargildi en öllu má nú ofgera. Við höfum því frá fáu að greina. Þó skal hér nokkuð til tínt og byrjað um seinustu helgi nóvembermánaðar.
Djúp tjáning meistara Bach
– var yfirskrift hljómleiks í Gerðubergi sunnudaginn 28. nóvember í tónleikaröðinni Klassík í hádeginu. Nína Margrét Grímsdóttir, doktor að lærdómi og færni á hljóðfæri sitt slaghörpu, heldur þar um þræði og tauma, sér um að hvergi sé slakað á fyllstu kröfum og er sjálf meðal helstu flytjenda. Að þessu sinni voru fluttar 3 sónötur Jóhanns Sebastíans Læks með lækjarnúmerunum 1017–1019. Fiðluna strauk hinn ungi Jóakim Páll Palomares Jóakimsson, hálfur espanjóli son fiðluleikaranna Joaquín's Palomares's og Unnar Pálsdóttur, nú í framhaldsnámi við Hans Eisler-skólann í Berlín. Skemmst er frá að segja að víst var kafað djúpt en engu síður svifið hátt. Sónöturnar gerð sig frábærlega, jafnt í sínum hægu sem hröðu köflum.
Hinn Smurði Händels
– hljómaði okkur í Grafarholtskirkjusalarkynnum óðinsdaginn 8unda desember í flutningi sameinaðs tvíkórs háskólakórsins Vox academica og selkórs seltirninga við stjórn Jóns Karls Einarssonar en Sigrún Eðvaldsdóttir fór fyrir hljómsveitinni. Hljómfagur hljómleikur í húsi sem mun kennt við einhverja Guðríði; við skulum vona að átt sé við fornkonuna Guðríði Þorbjarnardóttur úr Skagafirði sem átti soðningarstað í Vesturheimi og gekk svo suður til Róms fremur en eyjakonuna Tyrkja-Guddu sem lenti í slagtogi með Hallgrími rímnaskáldi og sálmatuðara. Händel karlinn sauð saman Messías sinn við enskan texta í mesta tímahraki sumarið 1741 og furða hvað mörg sönglaganna hafa enst um meira en hálfa þriðju öld. 80 manns sungu í einu en að auki fengu þessi að syngja dálítið ein: Ágúst Ólafsson bassarödd, Snorri Wíum tenórrödd, Sesselja Kristjánsdóttir altrödd og Hulda Björk Garðarsdóttir sópranrödd.
Gleðjið ykkur eða Gaudete
– kyrjuðu aðrir 80 samsöngvarar í Seltjarnarnesguðshúsi mánudaginn 20. desember á vegum Mentaskólans í Reykjavík. Söngglaðir unglingar dálítið óagaðir og villtir, kannski í rauninni bara ráðvilltir sem eðlilegt má teljast í ljósi þess að þau fengu ekki að syngja neitt skemmtilegt eða tilþrifamikið, heldur einungis eitthvert jólagutl. Líklega var stjórnandinn Guðlaugur Viktorsson ábyrgur fyrir því.
Kristinn raddmeiri en 50 manna samkór
– í Hallgrímsgímaldi Skólavörðuholts á næstsíðasta degi ársins. Mótettukór Harðar Áskelssonar flutti alskonar jólamúsík sérvalda fyrir erfiðustu hljómvist nokkurra salarkynna í Reykjavík og fékk til liðs við sig organleikarann Björn Steinar Sólbergsson og Kristin Sigmundsson bassasöngvara. Þrátt fyrir mörg leiðindalög var þetta eftirtektarverður og eftirminnilegur hljómleikur og fengu þó hvorki lækurinn Bach né þýsk-ítalsk-enski snillingurinn Händel að hljóma heldur ýmsir minni spámenn einvörðungu, margir 4ra alda gamlir. Hér skal við fátt eitt staldrað; minnst á hina ágætu nótt Einsa í Eidölum sem Sigvaldi setti lag við og Atli Heimir hefir nú gætt forspili framanvið og yfirrödd organs við 3ja erindi. Á óvart kom klukknalag Sigurðar Sævarssonar skólastjóra Nýja tónlistarskólans við merkilegan texta Jóhanns skálds Jónssonar; þar má segja að kór og organ hafi tekist á og báðum veitt betur. Ef til vill hefði mátt gera hljómleikinn í heild veigameiri með því að skeyta inn í hann köflum úr Hel tónskáldsins sem hann gerði við hið magnaða verk Sigurðar Nordals en þar er guðinn víðs fjarri.
Höldum svo inn í nýtt ár hæfilega fullir jötunmóði móti öllum guðum og þeirra góðmennum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli