Það var mikil og góð alþýðuskemmtun á dagskrá hjá Gerrit á hádegishljómleik í eyranu hans 24. nóvember. „Við skulum skemmta okkur í óperuhúsi í dag“ sagði hann og kvaddi fram fyrir spennta áheyrendur ungan snaggaralegan mann Jón Svavar Jósefsson barítón. Allt frá fyrsta tóni voru allir í heyrnarmáli á söngvarans bandi og drukku í sig söng hans og svipbrigði hvur ekki voru lítil: „Non più andrai, farfallone amoroso“ er einn fjölmargra kátlegra söngva rakarans í Le nozze di Figaro Mozarts; nú er Fígaró að leiða veslings litla Cherubino það fyrir sjónir hvað muni bíða hans í hermennskunni sem greifinn ætlar að senda hann í. Jón Svavar var allur á iði við flutninginn, lék nefnilega hlutverkið engu síður en en hann söng það, og var þá jafnt á líkamshreyfingar hans að líta sem andlitstjáningu. Og röddin reynist jafn leikandi, undur veik og þýð þegar við átti en einnig stormandi kraftmikil í bland.
Svona reyndist þetta í hverju sönglaginu á fætur öðru. Næst söng Jón Svavar aðra Mótsart-aríu, nefnilega þjónsins Leporellos um afrek húsbóndans Don Giovannis í kvennamálum: „Madamina, il catalogo è questo –
In Italia seicento e quaranta / In Alemagna duecento e trentuna;
Cento in Francia, in Turchia novantuna / Ma in Ispagna son già mille e tre.“ Og endurtekið hvað eftir annað þúsund og þrjár, þúsund og þrjár.
Það má rétt ímynda sér hvað kátt er á hjalla í þeim hesthúsum landsins þar sem söngvarinn kemur til að járna gangvara reiðmanna en sú mun hafa verið hjáiðja hans um hríð.
Þriðja lagið var ekki svona leikandi glaðlegt og fullt af skopi heldur er faðir að vanda um við son sinn að hann ekki steypi sér í glötun í faðmi léttúðugra kvenna – nefnilega sjálfrar La Travíötu Verdis – og biður hann þess lengstra orða að snúa til átthaganna kæru, hafs og moldar Próvinsunnar:
Di Provenza il mar, il suol / chi dal cor ti cancello?
Al natio fulgente sol / qual destino ti furo'?
Flutt af alvöru sem bar en ekki tækifæri til þeirrar leikrænu tjáningar sem söngvaranum virðist eiginleg og var í gamansöngvunum fyrrgreindu.
Þá kom að aríu úr annarri Verdíóperu „Per me giunto è il dì supremo“ sem Rodrigo markgreifi af posa syngur á banastund við hlið spænska ríkisarfans don Carlos – og deyr með gleði í hjarta fyrir slíkan arfaherra og föðurlandið. Tignarlega sorgarþrungið að ítölskum hætti.
Að lokum söng Jón Svavar innganginn að óperu Leoncavallos um trúðana i Pagliacci:
Si può?... Si può?... / Signore! Signori!... Scusatemi
se da sol me presento / Io sono il Prologo!
Útlistar svo muninn á leiklist og raunveru sem reynist æði lítill enda um verismo óperu að ræða.
Og endar náttúrlega á því að biðja áhorfendur vel að njóta þess sem fram verður borið:
Il concetto vi dissi... / Or ascoltate com'egli è svolto.
Andiam. Incominciate!
Jón Svavar hafði orð um það að þetta væri besta óperuaría allra tíma. Og tilheyrendur heilluðust svo af þessari ljúfsáru harmskoplegu andrá að þeir trúðu og héldu ánægðir fullnægðir heim.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli